Gjaldþrotum virkra fyrirtækja fjölgaði um 23% á fyrri helmingi ársins
Samtals voru 97 fyrirtæki sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins tekin til gjaldþrotaskipta í júní síðastliðnum. Af þeim voru 48 með virkni árið 2019, það er annaðhvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.
Af 546 fyrirtækjum sem urðu gjaldþrota á fyrri helmingi ársins 2020 voru 222 virk á fyrra ári, sem er 23% fleiri en þau voru á fyrri helmingi ársins 2019. Þar af voru 65 í Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 41 í Heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, 49 í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 67 í öðrum atvinnugreinum.
Fyrirtæki sem urðu gjaldþrota á fyrri helmingi ársins voru með 1991 launþega að jafnaði árið 2019 og um 18,9 milljarða króna veltu. Þetta eru mun lægri tölur en fyrir gjaldþrot á fyrri helmingi ársins 2019, sem skýrist af gjaldþroti WOW Air í mars 2019.