Lögregluembættið á Norðurlandi eystra hefur lokið rannsókn og afgreiðslu máls sem varðar utanvegaakstur hóps 25 erlendra ferðamanna á 7 íslenskum breyttum jeppabifreiðum sl. sunnudag við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi og sl. mánudag í friðlandinu við Grafarlönd á Öskjuleið fyrir norðan.
Ekki var þó öllum ökutækjunum 7 ekið utan vega í þessum tilvikum, en hópurinn hafði þó verið að ferðast saman sem ein heild og tjón á landi af völdum fjögurra bifreiða staðfest.
Málið var unnið af lögreglumönnum er sinna hálendisgæslu vegna Norðurlands eystra norðan Vatnajökuls, lögreglunni á Húsavík, lögreglunni á Höfn, lögreglunni austurlandi og landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs.
Töluverðar skemmdir voru unnar á landi við vesturströnd Jökulsárlóns og gríðarlegt tjón á landi í Grafarlöndum norðan Herðubreiðar.
Við rannsókn málsins kom fram hjá aðilum máls, að um kunnáttuleysi og vanþekkingu hefði verið að ræða og var beðist afsökunar og fyrirgefningar vegna þess tjóns sem unnið var.
Viðkomandi ferðamenn óskuðu þess jafnframt að fá að aðstoða við lagfæringar þess lands sem varð fyrir tjóni, en var það mat landvarða að betra væri að fá til verksins sértækan búnað og fólk. Málinu var lokið á Húsavík í dag, með sektargerðum sem aðilar undirgengust með greiðslu samtals kr. 1,4 milljónir.