Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lést í gær á heimili sínu við Marbakkabraut í Kópavogi, 83 ára að aldri, eftir baráttu við afleiðingar heilaslags snemma á þessu ári. Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag.
Styrmir fæddist í Reykjavík hinn 27. mars 1938, sonur Salmaníu Jóhönnu Jóhannesdóttur og Gunnars Árnasonar, framkvæmdastjóra Kassagerðar Reykjavíkur; elstur fimm systkina. Eiginkona Styrmis var Sigrún Finnbogadóttir (Bista), dóttir Huldu Dóru Jakobsdóttur, bæjarstjóra í Kópavogi, og Finnboga Rúts Valdimarssonar, bæjarstjóra og alþingismanns, en hún lést árið 2016. Þau eignuðust dæturnar Huldu Dóru, nú verkefnastjóra hjá Landspítala, og Hönnu Guðrúnu, prófessor í sýningagerð við Listaháskóla Íslands.
Styrmir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1965. Styrmir gaf sig mjög að félagsstörfum, einkum á yngri árum, og var m.a. formaður Orators 1960-61 og formaður Heimdallar 1963-66. Hann var varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 1966-69 og sat í auðlindanefnd 1998-2000.
Styrmir starfaði mestalla starfsævi sína á Morgunblaðinu. Hann fór raunar fyrst að skrifa í blaðið að staðaldri tvítugur að aldri en utan ritstjórnar. Hann hóf svo störf á ritstjórn sem blaðamaður 2. júní árið 1965 og tók þá þegar að fást við ritstjórnarskrif í Staksteina og forystugreinar blaðsins. Hann varð aðstoðarritstjóri 1971 og var ráðinn ritstjóri 1972, en þar voru fyrir þeir Matthías Johannessen og Eyjólfur Konráð Jónsson. Þar starfaði hann allar götur síðan, á mestu uppgangstímum blaðsins, allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 2. júní 2008, nákvæmlega 43 árum eftir að hann hóf þar störf. Þá hafði hann verið einn ritstjóri blaðsins um sjö ára skeið eftir að Matthías lét af störfum.
Fréttatíminn hefur birt ótal greinar eftir Styrmi Gunnarsson en hann var einstaklega næmur á ástandið í þjóðfélaginu hverju sinni og gat rýnt það frá öllum sjónarhornum og komist að réttri niðurstöðu, það er alls ekki öllum gefið, hvar í flokki sem þeir standa. Mikill missir ef að slíkum manni sem Styrmir Gunnarsson var og vottum við fjölskyldu hans innilegrar samúðar.
Discussion about this post