Mjög mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Fangageymslur eru fullar eftir nóttina og þurfti lögregla að grípa til vistunar í fangklefum lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði. Fjölmörg mál komu á borð lögreglu vegna ölvunar og annarslegs ástand. Þá var tilkynnt um aðila að brjótast inn á veitingastað í borginni. Þeir voru báðir handteknir og gista fangageymslur.
Um hálfþrjú leytið var tilkynnt um hnífaárás á Lækjartorgi. Tveir menn urðu fyrir árás og voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Árásaraðilar fundust skömmu síðar og voru vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins. Rannsókn málsins miðar vel.
Fleiri mál komu upp vegna vopnaburðar og haldlagði lögregla nokkra hnífa.
Þónokkrir aðilar voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þrír þeirra gista fangageymslur þar sem þeir ollu umferðaróhöppum eða slysum eða mál þeirra þörfnuðust frekari rannsóknar. Lögregla ók þónokkrum aðilum heim sem höfðu drukkið of mikið og þá voru nokkur slys sem má rekja til ölvunar. Mikið var um minniháttar mál og tilkynningar.
Umræða