,,Þetta er fyrir löngu orðið gott“
Nokkur orð vegna ásakanna Þráins Hallgrímssonar, fyrrum skrifstofustjóra Eflingar, í minn garð:
Eftir að ég og félagar mínir unnum kosningarnar um stjórn Eflingar leið dálítill tími þangað til að stjórnarskipti urðu og ég hóf störf sem formaður. Ég hélt áfram að vinna í leikskólanum, reyndar aðeins í hálfu starfi en það var vegna þess að ég hafði slasast alvarlega, margbrotið á mér öxlina og þessvegna verið frá vinnu í 3 mánuði.
En var þarna semsagt byrjuð aftur að vinna og á miklum og endalausum hlaupum; í vinnunni og í viðtölum út um allt, á endalausum fundum og svo framvegis. Þegar fór að líða að því að ég tæki við sem formaður hafði Sigurður Bessason, fráfarandi formaður félagsins, samband við mig og lagði mikla áherslu á við ættum fundi, til að ræða um félagið og til að hann gæti miðlað til mín þekkingu sinni. Mig langaði ekkert sérstaklega mikið til þess en leit svo á að mér bæri til þess skylda. Við hittumst nokkrum sinnum og ræddum um hitt og þetta. Meðal annars sagði ég honum í það minnsta tvisvar frá því að ég ætlaði að ráða nýjan skrifstofustjóra.
Á þessum fundum kom fram, sem og í símasamtölum, að Sigurður lagði mjög mikla áherslu á að ég kæmi sem fyrst til að heilsa upp á allt starfsfólkið. Ég samþykkti að gera það og dagur var ákveðinn, þar sem ég ásamt einum félaga mínum komum saman í heimsókn. Ég hélt að ég myndi ganga um vinnustaðinn og heilsa upp á fólk, annað hafði ekki verið rætt, og kom því dálítið á óvart að öllu starfsfólkinu hafði verið boðið inn í stjórnarsal Eflingar og skrifstofunni lokað. En ég hugsaði: „Ok, ekkert mál, svona bara er þetta“ og settist ásamt hinum. Sigurður Bessason sagði nokkur orð og bauð mér svo að ávarpa fólkið.
Ég kynnti mig, kynnti félaga minn, sagðist hlakka til að koma til starfa og sagði að ég vonaði að við gætum unnið vel saman. Ég sagði að ég myndi „taka með mér“ nýjan skrifstofustjóra. Að þessu loknu stakk Sigurður upp á því að allir viðstaddir kynntu sig. Þegar kom að Þránni sagði hann að hann liti svo á að honum hefði rétt í þessu verið sagt upp fyrir framan alla og að honum hefði aldrei verið sagt frá því að hann yrði ekki áfram skrifstofustjóri. Og nú vil ég játa að ég í reynsluleysi mínu og af barnaskap leit svo á að vegna þess að ég hafði tilkynnt Sigurði Bessasyni í það minnsta tvisvar sinnum um að ég hygðist ekki hafa Þráinn áfram sem skrifstofustjóra (með því minn nánasta samstafsmann) hefði Sigurður auðvitað upplýst Þráinn um það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta var auðvitað heimskulegt af mér, en ég segi það satt að mér datt ekki annað í hug. Mér brá því mjög þegar að Þráinn sagði að hann hefði ekki haft neina vitneskju um að ég ætlaði að ráða nýjan skrifstofustjóra. Ég baðst samstundis mikillar og innilegrar afsökunnar og var augljóslega miður mín yfir því að hafa klúðrað þessum fyrsta starfsmannafundi.
Eftir að hafa beðið Þráinn afsökunnar á fundinum bað ég hann að mig minnir fimm sinnum í viðbót afsökunnar, af fyrra bragði. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að ég hefði talið að Sigurður myndi koma skilaboðunum til hans og að mér þætti þetta innilega leitt. Mér er það mjög minnisstætt þegar Þráinn rétti svo fram höndina og sagði að málið væri útrætt. Ég tók í hönd hans og skyldi handabandið með þeim hætti að hann tæki mark á úrskýringum mínum.
Þegar ég svo kom til starfa gerði ég starfslokasamning við Þráinn, sem að hann skrifaði undir. Ég hótaði honum ekki eða ógnaði með neinum hætti. Þráinn var þá 70 ára gamall. Það samkomulag hefur að fullu verið efnt af hálfu félagsins og aldrei nokkurn tímann kom neitt annað til greina. Nokkrum mánuðum eftir að hann hafði skrifað undir starfslokasamninginn ákvað Þráinn að hann vildi betri starfslokasamning. Til þess að knýja mig til þess að útbúa betri samning hefur hann sent bréf hingað og þangað og fengið Láru V. Júlíusdóttur til að vinna sem einhverskonar innheimtumanneskju fyrir sig. Ég veit ekki hversvegna hann fer fram með þessum hætti.
Ég vildi ekki hafa Þráinn Hallgrímsson sem minn nánasta samstarfsmann. Ég leit svo á að ég þyrfti þess ekki, að nýkjörinn formaður hefði eitthvað um það að segja hverjum hún inni með. Ég gerði starfslokasamkomulag við Þráinn, sem hann skrifaði undir. Ég baðst ítrekað afsökunnar á því sem gerðist á fundinum, fundi sem ég boðaði ekki til og sem ég vissi ekki að yrði haldinn. Þráinn tók í hendina á mér og með því leit ég svo á að hann tæki afsökunnarbeiðni mína til greina.
Ég spyr: Á ég að láta þvinga mig til að gera eitthvað sem er gegn minni betri samvisku, sem lætur mig taka ákvarðanir sem ganga gegn hagsmunum félagsins, þvingar mig til að samþykkja að afhenda fjárhæðir og endursemja um starfslok vegna þess að fólk fer fram með hótunum og árásum? Átti ég að starfa með manni sem mig langaði ekkert að starfa með, vegna þess að hann leit svo á að hann einfaldlega ætti starf skrifstofustjóra Eflingar? Eða mátti ég mögulega líta svo á að ég sem nýr formaður Eflingar, næst stærsta verkalýðsfélags landsins, kjörin með ríflega 80% greiddra atkvæða, hefði eitthvað val, eitthvað frelsi, hefði sjálf eitthvað um það að segja hver væri minn nánasti og dags-daglegi samstarfsfélagi?
Ég blokkaði mann á Facebook í morgun. Ég hef þurft að blokka nokkra menn síðan ég tók við störfum, menn sem hafa kalla mig öllum illum nöfnum og gert mér upp ýmsar sakir. Ég get ekki blokkað Þráinn Hallgrímsson út úr lífi mínu en mikið vildi ég óska þess að hann og Lára V. fyndu sér eitthvað annað að gera en að bera út óhróður um mig í þeim tilgangi að fá mig til að endursemja um starfslok við hann. Þetta er fyrir löngu orðið gott.