Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular og gular veðurviðvaranir sem gildir um land allt. Djúp haustlægð gengur yfir landið með hvassviðri og stormi ásamt mikilli rigningu en slyddu eða snjókomu á heiðum norðantil á landinu.
Hugleiðingar veðurfræðings
Nú nálgast okkur hratt lægð úr suðvestri og fellur þrýstingur í miðju hennar ört. Með morgninum má búast við austlægri vindátt, hvassviðri eða stormi með talsverðri rigningu, en jafnvel slydda á heiðum norðantil á landinu.
Þegar kemur fram á daginn gengur miðja lægðarinnar yfir landið, frá Faxaflóa að Tröllaskaga. Þó hvasst sé allt í kringum lægðarmiðjuna, er skæðasti vindurinn sunnan hennar. Eftir hádegið mun því snúast snögglega um vindátt og vestan og suðvestan rok eða jafnvel ofsaveður skellur á sunnanverðu landinu og síðar á austanvert landið.
Undanfarna daga hefur verið nokkur óvissa með dýpt lægðarinnar og einnig hvaða leið hún muni fara yfir landið, en þessir tveir þættir ráða mestu um hversu slæmt veðrið verður. Í gærmorgun versnuðu spárnar og þá voru gefnar út gular viðvaranir fyrir veður dagsins. Nýjustu spár í nótt og þær sem bárust nú snemma í morgun hafa síðan enn versnað og því er unnið að því að færa viðvaranir uppá appelsínugult stig á þeim svæðum þar sem veðrið verður verst samkvæmt spám.
Skemmst er frá því að segja að dagurinn í dag hentar ekki til ferðalaga og vert er að huga að því að tryggja lausamuni svo þeir fjúki ekki.
Það fer síðan að draga úr vindi og úrkomu á vestanverðu landinu í kvöld, en austantil í nótt og fyrramálið. Þegar kemur fram á morgundaginn má búast við vestlægum kalda eða strekkingi og skúrir eða slydduél í flestum landshlutum. Hitatölurnar stefna niðurávið.
Spá gerð: 21.09.2021 06:44. Gildir til: 22.09.2021 00:00.
Veðuryfirlit
600 km SV af Reykjanesi er ört vaxandi 980 mb lægð sem fer hratt NA. 450 km NA af Langanesi er 988 mb lægð sem þokast NV.
Samantekt gerð: 21.09.2021 03:26.
Veðurhorfur á landinu
Vaxandi austlæg átt, 15-23 m/s og talsverð rigning með morgninum, en slydda á heiðum norðantil á landinu. Breytileg eða vestlæg átt síðdegis og 20-28 m/s sunnan- og austanlands. Hiti 4 til 12 stig.
Dregur úr vindi og úrkomu á vestanverðu landinu í kvöld, en austantil í nótt og fyrramálið.
Vestlæg átt 5-13 þegar kemur fram á morgundaginn og skúrir eða slydduél í flestum landshlutum. Kólnar í veðri.
Spá gerð: 21.09.2021 05:34. Gildir til: 22.09.2021 00:00.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Gengur í austlæga átt 13-23 m/s með morgninum og rigning, hvassast á Kjalarnesi. Snýst í vestan og norðvestan 18-25 eftir hádegi, en 10-15 í kvöld og skúrir. Hiti 6 til 11 stig.
Vestan 5-13 á morgun og skúrir, hægari og þurrt undir kvöld. Kólnar heldur í veðri.
Spá gerð: 21.09.2021 05:23. Gildir til: 22.09.2021 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag (haustjafndægur):
Vestlæg átt 5-13 m/s, en 13-20 við norðausturströndina í fyrstu. Dálítil rigning eða slydda með köflum, en þurrt að kalla á Austfjörðum og Suðausturlandi. Hiti 2 til 8 stig, kaldast í innsveitum norðanlands.
Á fimmtudag:
Snýst í austan 5-13 með rigningu, en þurrt á Norður- og Austurlandi þangað til síðdegis. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Breytileg átt 3-8. Skýjað að mestu og lítilsháttar væta í flestum landshlutum. Hiti 3 til 9 stig.
Á laugardag:
Suðaustan 13-20 og rigning um allt land. Hiti 5 til 12 stig.
Á sunnudag og mánudag:
Ákveðin suðaustan- og austanátt. Lengst af rigning sunnan- og austanlands, en úrkomulítið og bjart á köflum um landið norðan- og vestanvert. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast á Vesturlandi.