Vel yfir þúsund reglugerðir felldar brott
Íslenskt regluverk verður að vera aðgengilegt og auðskiljanlegt segja þau Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra sem í dag kynntu aðgerðaráætlun um einföldun regluverks.
Fella brott 1090 reglugerðir í landbúnaði og sjávarútvegi
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur fellt brott 1090 reglugerðir á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Breytingarnar eru liður í einföldun regluverks sem er forgangsverkefni í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Verkefnið er unnið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að gert verði átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu.
„Með því að fella þessar reglugerðir brott er verið að hreinsa til í regluverkinu á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Þar með er öllum þeim sem þurfa að fylgja því auðveldað að sjá í gegnum skóginn. Við munum á næstunni vinna að enn frekari einföldun regluverks. Það er eitt af forgangsmálum í ráðuneytinu“ segir Kristján Þór.
Einföldunin er meðal annars gerð með því að uppfæra, sameina og fella brott reglugerðir, þannig að rúmlega 100 eldri reglugerðir á sviði sjávarútvegs verða að 8 nýjum. Sem gerir það að verkum að regluverk á sviði sjávarútvegs verður aðgengilegra. Einnig er um að ræða reglugerðahreinsun sem fellir brott tímabundnar reglugerðir sem hafa ekki lengur gildi. Auk þess falla brott reglugerðir sem meðal annars hafa verið settar með stoð í lögum sem þegar hafa verið felld úr gildi. Allt er þetta liður í fyrsta áfanga aðgerðaáætlunar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til næstu þriggja ára sem lítur að einföldun regluverks.
Áformaðar lagabreytingar í samráðsgátt
„Meginverkefni okkar á að vera að horfa gagnrýnum augum á þær reglur sem hafa verið settar og fækka þeim eins og mögulegt er. Slík einföldun regluverks stuðlar að aukinni verðmætasköpun, meiri skilvirkni, meiri samkeppni, lægra verði og þar með betri lífskjörum. Hér höfum við svo sannarlega verk að vinna.“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, en lagafrumvarp hennar um breytingar á ýmsum lögum til einföldundar regluverks er nú í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið er fyrsti áfangi af þremur í aðgerðaráætlun ráðuneytisins um einföldun regluverks á þessum málefnasviðum sem ráðgert er að standi yfir fram á mitt ár 2021.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að skráningum verslana verði hætt, iðnaðarleyfi og leyfi til sölu notaðra ökutækja verði lögð af, ráðherra fái heimild til að framselja vald til að veita undanþágur á grundvelli laga um samvinnufélög, auk annarra atriða sem horfa til einföldunar. Loks er lagt til í frumvarpinu brottfall 16 úreltra laga sem ekki hafa sérstakt gildi lengur.
Kynningarglærur frá fundinum
https://gamli.frettatiminn.is/2019/07/27/160-rikisstofnanir-i-357-thusund-manna-samfelagi-baknid-blaes-enn-ut/