Tveir erlendir menn voru handteknir á Höfn að kvöldi 17. október eftir að þeir höfðu tekið mann nauðugan og flutt af heimili sínu þar. Mennirnir gistu fangageymslur um nóttina en voru yfirheyrðir daginn eftir. Annar þeirra var síðan færður fyrir Héraðsdóm Suðurlands á Selfossi þar sem viðkomandi var að morgni laugardagsins 19. október í s.k. síbrotagæslu í fjórar vikur til 15. nóvember n.k. en maðurinn á ólokin mál frá a.m.k. fjórum lögregluembættum. Hinn maðurinn var látinn laus að yfirheyrslu lokinni.
14 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni. Í einu þeirra fataðist ökumanni þegar „eitthvað hljóp í veg fyrir bifreiðina“ þar sem viðkomandi ók um Laugarvatnsveg þann 17. október s.l. Ökumaður kom sér sjálfur úr bílnum, sem hafði oltið og stöðvast mikið skemmdur úti í skurði, og fékk aðstoð við að komast á sjúkrahús á Selfossi.
Þann 20. október fór bifreið út af Meðallandsvegi og þar heila veltu. Ökumaður og farþegi sem í bifreiðinni voru sluppu ómeiddir að eigin sögn.
Að morgni 19. október valt bifreið á Þrengslavegi. Ökumaður var einn í bílnum og metinn óslasaður af sjúkraflutningsmönnum sem á vettvang komu. Smávægilegur eldur kom upp í bifreiðinni og segir í bókun að hann hafi verið slökktur með „kókflösku“
Þann 14. október missti hjólreiðamaður stjórn á reiðhjóli sínu þar sem hann var á ferð um Hvolsvöll. Maðurinn var hjálmlaus og er talinn nef og höfuðkúpubrotinn. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Í tveimur tilvikum rákust hliðarspeglar ökutækja bifreiða sem mættust á vegi saman. Annarsvegar skammt vestan Ölfusárbrúar þar sem Mercedes Benz sprinter og Ford F350 mættust þann 18. október um kl. 09:00 Hitt tilvikið var einnig á Suðurlandsvegi en aðfaranótt 15. október rákust hliðarspeglar tveggja flutningabifreiða saman þar sem þeim var ekið um A- Skaftafellssýslu. Í hvorugu tilvikinu urðu slys á fólki.
57 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í vikunni og 2 fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.