Á Íslandi er gengið lengra í að setja skorður á koffín-magn í drykkjum en í flestum Evrópulöndum þar sem ótakmarkað magn er heimilt. Hér er sala koffín-ríkra orkudrykkja til barna yngri en 18 ára bönnuð og 320 mg/l er hámark án sérstaks leyfis. Ef markaðssetja á drykk með hærra koffíninnihaldi þarf að sækja um leyfi til Matvælastofnunar.
Þegar sótt er um leyfi fyrir markaðssetningu koffíndrykkja/orkudrykkja sem innihalda meira en 320 mg /lítra þá fer fram áhættumat óháðra vísindamanna. Við áhættumat er notast við vísindaálit matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) en skv. því stafar neytendum ekki hætta af neyslu af 200 mg af koffíni í einum neysluskammti. Enginn orkudrykkur með markaðsleyfi hérlendis inniheldur meira en 200 mg í hverjum neysluskammti. Leyfisveiting tekur einnig tillit til skuldbindinga um frjálst vöruflæði skv. EES-samningnum.
Ef leyfi er veitt fylgir það miklum takmörkunum, s.s. kröfu um varúðarmerkingu framan á vörunni og sölubann til barna yngri en 18 ára. Matvælastofnun ákvarðar skilyrði til markaðssetningar og annast leyfisveitingu. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hefur eftirlit með að skilyrðum leyfisveitingar sé framfylgt af dreifingaraðila og á sölustað.
Í ljósi vísbendinga um aukningu á neyslu orkudrykkja meðal ungmenna þá vaknar spurning um hvort ástæða sé til að herða reglur um koffín magn í matvælum einkum í orkudrykkjum. Hverjar eru neysluvenjur ungs fólks og hvaða áhrif hefur neyslan á líðan þeirra og heilsu? Er þörf á aukinni fræðslu til almennings til að auka þekkingu á áhrifum koffíns á heilsu fólks?
Þetta verður til umfjöllunar á norrænu málþingi um orkudrykki og ungt fólk þriðjudaginn 22. október kl. 10:00 – 15:30 á Grand Hótel Reykjavík. Málþingið er þátttakendum að kostnaðarlausu og eru allir velkomnir. Hægt er að fylgjast með því í beinni á Neytendavakt Matvælastofnunar á Facebook. Málþingið er skipulagt af Matvælastofnun og styrkt af Norrænu ráðherranefndinni sem liður í formennsku Íslands 2019.