Fyrir miðnættið höfðu um 1.000 skjálftar mælst á Núpstaðahálsi og við Fagradalsfjall, nú hafa mælst hátt í 140 jarðskjálftar yfir 2 að stærð og mörg hundruð minni á Reykjanesskaga frá því að jarðskjálfti upp á 5,6 varð þar rétt fyrir klukkan tvö í gær. Flestir eiga þeir upptök sín skammt frá Fagradalsfjalli og á Núpsstaðahálsi í nágrenni stóra skjálfans í gær.
Áfram má búast við skjálftavirkni á svæðinu. Veðurstofunni hefur borist talsvert af tilkynningum um grjóthrun á Reykjanesi og er ferðafólki bent á að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum á meðan líkur eru á áframhaldandi skjálftavirkni.
Eins hafa borist tilkynningar um aukna gaslykt í nágrenni Grænavatns á Núpstaðahálsi í tengslum við jarðskjálftana. Veðurstofan mun áfram fylgjast vel með virkninni á svæðinu.
Umræða