Upp úr klukkan fimm í gærdag var tilkynnt um umferðaróhapp / slys í Kópavogi. Sá sem olli slysinu gekk hinn rólegasti burt frá vettvangi með opna bjórdós í hönd, þar sem bíllinn var óökufær eftir slysið, en var handtekinn skömmu síðar. Maðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og áfengis og vörslu fíkniefna.
Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. Meiðsli ökumanns hins bílsins og tveggja farþega hans eru skráð sem eymsli eftir öryggisbelti og hnykkur. Flytja þurfti báðar bifreiðar af vettvangi með kranabílum.
Þá kom húsráðandi að ókunnugu pari í bílskúr sínum í einum af hverfum borgarinnar, þar sem þau voru búin að taka verkfæri ofl. Hann sagði þeim að skila mununum og fóru þau án þess að taka neitt með sér en ógnuðu húsráðanda með eggvopni er þau fóru. Parið fannst ekki þrátt fyrir leit. Þá vor nokkrir stöðvaðir vegna fíkniefna og ölvunaraksturs og sumir fengu að gista fangageymslur vegna mikillar vímu.