Tölur frá Fiskistofu sýna að um tveggja prósenta munur var að meðaltali á íshlutfalli í endurvigtun á fiski á árunum 2014 til 2018 eftir því hvort eftirlitsmaður frá Fiskistofu var viðstaddur endurvigtunina eða ekki
Það var árið 2016 sem Fiskistofa hóf, að áeggjan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að birta opinberlega tölur um íshlutfall í endurvigtuðum afla til að bera saman hvort munur sé á skráðu íshlutfalli eftir því hvort eftirlitsmaður frá Fiskistofu fylgist með endurvigtun eða ekki. Þetta kemur fram hjá Fiskifréttum. Þar segir að Daði Már Kristófersson, prófessor í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, hafi ásamt kollegum sínum skoðað tölur Fiskistofu fyrir árin 2014 til 2018 og niðurstaðan var sú að munurinn á íshlutfalli eftir því hvort eftirlitsmaður fylgdist með eða ekki var að meðaltali rétt rúm 2 prósent.
Það sem meira er, þá lækkaði munurinn niður í um eitt prósent eftir að Fiskistofa hóf að birta tölurnar. Ennfremur kom í ljós að munurinn var enginn þegar endurvigtað var hjá fiskmörkuðum, enda vart við því að búast. „Það væri lítið vit í því,“ segir Daði Már. „Fyrst og fremst eru það samþættu fyrirtækin sem manni finnst ástæða til að hafa áhyggjur af.“ Segir Daði Már í viðtalinu
Íshlutfallið datt niður
Munurinn er því að meðaltali meiri fyrir aðra aðila en fiskmarkaðina. Áður en birting Fiskistofu á gögnunum hófst var munurinn á skráðu íshlutfalli um 5,5 prósent hjá öðrum en fiskmörkuðum, en svo dettur hann niður í kringum 3 prósent við breytinguna.
En teknar voru upplýsingar um allar endurvigtanir á árunum 2014 til 2018, alls um 80 þúsund mælingar og bornar saman við svokallaðar yfirstöðumælingar, þar sem eftirlitsmaður frá Fiskistofu var til staðar. Yfirstöðumælingarnar voru um 3000 á tímabilinu.
Niðurstaðan varð sem fyrr segir sú að meðaltalsmunurinn yfir allt tímabilið var um tvö prósent. Ef miðað er við 350 þúsund tonna veiði árlega þá eru 2,2 prósent af því 7,7 þúsund tonn. Aflaverðmæti 7.700 tonna getur numið vel yfir milljarði króna á einu ári. Hægt er að nálgast viðtalið hér.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/19/vill-lata-innkalla-kvotann/