Hugleiðingar veðurfræðings
Veðurspárnar bjóða ekki uppá miklan breytileika þessa dagana. Norðan og norðaustanáttin allhvöss eða hvöss um allt land. Él og snjókoma á köflum fyrir norðan og austan, en lengst af skýjað með köflum og þurrt annars staðar. Vægt frost, en sums staðar frostlaust við ströndina, einkum austan- og suðaustantil.
Þessi texti gæti allt eins átt við næstu daga, en þó eru spár að gera ráð fyrir að úrkomubakki nálgist landið úr suðri á mánudag og þriðjudag og gæti þá snjóað um tíma um landið sunnanvert. Eins og staðar er núna er nákvæm staðsetning eða magn óráðið, eða jafnvel gæti þetta endað á að ná ekki inná land.
Veðurhorfur á landinu
Norðan 8-15 m/s og 10-18 síðdegis, en sums staðar hvassari vindstrengir syðra. Él eða snjókoma á norðanverðu landinu, en bjart sunnan heiða.
Heldur hvassari á morgun. Samfeld snjókoma NA- og A-lands, þurrt að kalla um landið S-vert, en annars él.
Frost 1 til 6 stig, en allvíða frostlaust syðst og austast. Spá gerð: 22.01.2021 04:06. Gildir til: 23.01.2021 00:00.
Gul viðvörun vegna veðurs: Strandir og norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Austfirðir
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Norðan 13-20 m/s og snjókoma eða éljagangur, hvassast við SA-ströndina, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost víða 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.
Á sunnudag:
Norðan 8-15 m/s og él, en léttskýjað S- og V-lands. Frost 1 til 8 stig, minnst syðst.
Á mánudag:
Norðankaldi og víða dálítil él, en austlægari syðst og líkur á snjókomu þar. Harðnandi frost.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðaustlæga átt með snjókomu eða éljum, en dregur heldur úr frosti. Spá gerð: 21.01.2021 20:07. Gildir til: 28.01.2021 12:00.