Yfir 300 þúsund króna munur á leikskólagjöldum á ári fyrir fjölskyldur með fleiri en eitt barn á leikskóla
Úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að almenn leikskólagjöld, 8 tímar með fæði, hækka mest hjá Seltjarnarnesbæ eða um 11% en sömu gjöld lækka um 3,7% í Mosfellsbæ.
Í 10 af þeim 15 sveitarfélögum sem úttektin nær til hækka gjöldin um 2,4%-3,1%. Níundi tíminn hækkar mest í Hafnarfirði, um 98% eða 5.455 kr. og hækka gjöld fyrir 9 tíma vistun m. fæði í Hafnarfirði því um 16,6% eða um 6.488 kr. á mánuði.
Níundi klukkutíminn lækkar mest í Mosfellsbæ, um 5%.
53% munur á hæstu og lægstu almennu leikskólagjöldunum
53% munur er á hæstu og lægstu almennu leikskólagjöldunum, 8 tímum með fæði, eða sem nemur 14.372 kr. á mánuði eða 143.720 kr. á ári miðað við 10 mánaða vistun. Lægstu gjöldin eru hjá Reykjavíkurborg en þau hæstu hjá Garðabæ. Sömu gjöld fyrir forgangshópa eru lægst í Reykjavík en hæst hjá Sveitarfélaginu Árborg. Almenn gjöld, 9 tíma vistun m. fæði, eru hæst í Garðabæ en lægst í Reykjavík. Fyrir forgangshópa eru gjöldin lægst í Reykjavík en hæst í Kópavogi.
Munur á hæstu og lægstu samanlögðum leikskólagjöldum fyrir fjölskyldur með tvö börn er 81% eða 31.312 kr. á mánuði sem gerir 313.120 kr. á ári sé miðað við 10 mánaða vistun. Reykjavík er með lægstu leikskólagjöldin bæði fyrir fjölskyldur með tvö börn á leikskóla og þær sem eru með þrjú börn. Ísafjarðarbær er með hæstu leikskólagjöldin fyrir fjölskyldur með tvö börn á leikskóla en Akranesbær hæstu gjöldin fyrir þrjú börn.
Almenn leikskólagjöld, 8 tímar með fæði hækka mest á Seltjarnarnesi en lækka mest í Mosfellsbæ
Mest hækkuðu almenn leikskólagjöld, 8 tímar m. fæði hjá Seltjarnarnesbæ, 11,1% sem má rekja til 2,6% hækkunar á dvalargjöldum og 31,6% hækkunar á fæðisgjaldi. Hækkunin nemur 3.234 kr. á mánuði. Næst mest hækka sömu gjöld hjá Akraneskaupsstað eða um 4,7% sem má rekja til 2,5% hækkunar á dvalargjöldum auk 11,7% hækkunar á fæðisgjaldi. Mest lækkuðu almenn leikskólagjöld, 8 tímar m. fæði í Mosfellsbæ eða um 3,7% sem má rekja til 5% lækkunar á dvalargjöldum. Næst mest lækka 8 tímar með fæði í Fjarðabyggð, 2% en lækkunin er tilkomin vegna 18,2% lækkunar á fæðisgjaldi en dvalargjöld hækkuðu um 2,4%. Gjöldin stóðu í stað milli ára hjá Vestmanneyjabæ.
Leikskólagjöld fyrir forgangshópa, 8 tímar með fæði, hækka einnig mest milli ára hjá Seltjarnarnesbæ, 14,5% og næst mest hjá Akraneskaupsstað, um 5,5%. Sömu gjöld lækka mest hjá Fjarðabyggð, 3,4% og næst mest hjá Mosfellsbæ, 3,1%.
Níundi tíminn hækkar um 98% í Hafnarfirði
Níundi klukkutíminn í dagvistun er dýrari en gjald fyrir fyrstu 8 klukkustundirnar í flestum sveitarfélögum og geta heildarleikskólagjöld því hækkað töluvert ef níunda tímanum er bætt við. Mest hækkaði níundi tíminn í Hafnarfirði, 98% og fer úr 5.558 kr. í 11.013 kr. sem skilar sér í 16,6% hækkun á 9 tíma vistun með fæði. Hluta hækkunarinnar má rekja til 2,7% hækkunar á almennu dvalargjaldi og 4,2% hækkunar á fæðisgjaldi. Verð fyrir níunda tímann lækkaði um 5% í Mosfellsbæ en stóð í stað í Vestmannaeyjum.
Á eftir Hafnarfjarðarbæ hækkaði 9 tíma vistun mest hjá Seltjarnarnesbæ, 9,6%. Sömu gjöld lækkuðu um 3,8% í Mosfellsbæ og um 1,3% í Fjarðabyggð. Svipaðar breytingar voru á gjöldum fyrir 9 tíma vistun með fæði fyrir forgangshópa eins og sjá má í töflunni hér að neðan.
Lægstu almennu leikskólagjöldin í Reykjavík en þau hæstu í Garðabæ
Almenn leikskólagjöld, 8 tímar með fæði, eru lægst hjá Reykjavíkurborg, 27.255 kr. og næst lægst í Mosfellsbæ, 30.138 kr. Þriðju lægstu gjöldin eru hjá Seltjarnarnesbæ, 32.286 kr. Garðabær er með hæstu gjöldin f. 8 tíma vistun með fæði, 41.627 kr. og Akraneskaupstaður næst hæstu gjöldin, 41.066 kr. 53% munur er á hæstu og lægstu gjöldum fyrir 8 tíma með fæði eða 14.372 kr. á mánuði.
Leikskólagjöld fyrir forgangshópa hæst í Reykjanesbæ en lægst í Reykjavík
Lægstu leikskólagjöldin fyrir forgangshópa, 8 tíma vistun m. fæði, eru einnig hjá Reykjavíkurborg, 18.111 kr. og næst lægst í Mosfellsbæ, 21.463 kr. Hæstu gjöldin fyrir forgangshópa eru hjá Sveitarfélaginu Árborg, 30.778 kr. og næst hæstu gjöldin hjá Reykjanesbæ, 30.502 kr.
Almenn leikskólagjöld hækka um 45% í Kópavogi við að bæta 9. tímanum við og um 40% í Reykjavík
Níundi tíminn er töluvert dýrari í mörgum sveitarfélögunum en tímagjald á hverja klukkustund fyrstu 8 tímana og þegar níundi tímanum er bætt við verður nokkur breyting á hvar hæstu og lægstu gjöldin eru. Almenn leikskólagjöld, 9 tíma vistun m. fæði, eru t.d. 45% hærri en 8 tíma vistun m. fæði í Kópavogi. Kópavogur fer þannig úr því að vera með fimmtu lægstu gjöldin fyrir 8 tíma vistun yfir í að vera með önnur hæstu gjöldin fyrir 9 tíma vistun. Almenn leikskólagjöld, 9 tímar með fæði, eru þó hæst í Garðabæ, 50.003 kr. Mosfellsbær skákar Reykjavíkurborg og er með lægstu gjöldin þegar níunda tímanum er bætt við og kostar 9 tíma vistun m. fæði 34.205 kr. í Mosfellsbæ. Næst lægstu gjöldin eru hjá Reykjavíkurborg, 38.052 kr. og eru þau 40% hærri en almenn leikskólagjöld fyrir 8 tíma hjá borginni.
Gjöld fyrir 9 tíma vistun með fæði fyrir forgangshópa eru lægst í Reykjavík, 22.576 kr. og næst lægst í Mosfellsbæ, 23.903 kr. Hæst eru gjöld fyrir 9 tíma vistun m. fæði fyrir forgangshópa hjá Kópavogsbæ, 37.426 kr., næst hæst hjá Sveitarfélaginu Árborg, 35.450 kr. og litlu lægri eru þau hjá Vestmanneyjabæ, 35.022 kr.
Leikskólagjöld fyrir fjölskyldur með fleiri en eitt barn á leikskóla lægst hjá Reykjavíkurborg en hæst hjá Ísafjarðarbæ og Akraneskaupstað
Systkinaafslættir geta haft mikil áhrif á heildarútgjöld fjölskyldna til leikskóla ef fjölskyldur eru með fleiri en eitt barn. Afslátturinn er mismikill eftir sveitarfélögum eða frá 25-75% fyrir annað barn og 75-100% fyrir þriðja barn.
Þegar afslættirnir eru reiknaðir má sjá að lægstu leikskólagjöld fyrir tvö börn í 8 tíma dagvistun með fæði eru hjá Reykjavíkurborg, 38.886 kr. og þau næst lægstu hjá Mosfellsbæ, 49.432 kr. Hæst eru gjöldin hjá Ísafjarðarbæ, 70.198 kr. og næst hæst hjá Akraneskaupsstað, 66.884 kr. Munur á hæstu og lægstu gjöldum, 8 tímum með fæði, fyrir tvö börn er því 81% eða sem nemur 31.312 kr. á mánuði.
Leikskólagjöld fyrir fólk með þrjú börn í 8 tíma vistun og fæði eru einnig lægst í Reykjavík, 50.517 kr. en hæstu gjöldin eru á Akranesi, 85.078 kr. Munur á hæstu og lægstu leikskólagjöldum sveitarfélaganna fyrir fólk með þrjú börn er því 68% eða 34.561 kr. á mánuði sem gerir 345.610 kr. á á ári miðað við 10 mánaða vistun.
Um úttektina
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla, á tímagjöldum og fæðisgjöldum hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2020 til 1. janúar 2021. Múlaþing er ekki með í úttektinni en vegna atburða á Seyðisfirði og nýtilkominnar sameiningar nokkurra sveitarfélaga hafa gjaldskrár ekki enn verið kláraðar.