Rúmlega 500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu
Athugasemdir jarðvísindamanns: Í kvöld, 22. feb. kl. 20:10 varð skjálfti 3,1 að stærð, 3,6 km N af Reykjanestá. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu.
Veðurstofan varar við hellaskoðun við Eldvörpin á Reykjanesskaganum. Gasmælingar þar á fimmtudaginn, 20. febrúar, sýndu lífshættuleg gildi á koltvísýringi og súrefnisskort í helli við bílastæði þaðan sem eru vinsælar gönguleiðir.
Þann 20. febrúar hófst skjálftahrina um 10 km N af Gjögurtá. Rúmlega 200 skjálftar hafa mælst á svæðinu, allir undir M3.0 að stærð. Engar tilkynningar hafa borist um að þeir hafi fundist í byggð. Hrinur eru algengar á þessum slóðum.
Jarðskjálftahrinan við Reykjanestá heldur áfram og eru allir skjálftarnir undir 3,0 að stærð.
Virkni við Grindavík
Dregið hefur úr landrisi á svæðinu en ennþá mælist aflögun. Næsti fundur vísindaráðs Almannavarna verður haldinn, þriðjudaginn 25. febrúar nk.
Skrifað af vakthafandi jarðvísindamanni 22. feb. 21:06
Vikuyfirlit 10. febrúar – 16. febrúar
Rúmlega 500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, færri en vikuna áður þegar að þeir voru um 700 talsins. Stærsti skjálfti vikunnar var 3,6 að stærð að morgni 15. febrúar í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni. Jarðskjálftavirkni við Þorbjörn hélt áfram og voru um 260 skjálftar staðsettir í vikunni, þeir stærstu 3,2 og 3,1 að stærð og fundust þeir í nágrenninu. Að morgni 15. febrúar hófst jarðskjálftahrina á Reykjanestá þar sem að rúmlega 70 skjálftar mældust á tveimur sólahringum og um 25 smáskjálftar voru staðsettir 10 km ANA af Grímsey í liðinni viku.