Arion banki hefur tekið ákvörðun um að hækka óverðtryggða breytilega íbúðalánavexti um 0,50 prósentustig og verða þeir 4,79%. Óverðtryggðir fastir íbúðalánavextir til þriggja ára hækka um 0,45 prósentustig og verða 5,69%.
Verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir lækka um 0,35 prósentustig og verða 1,89%. Verðtryggðir fastir íbúðalánavextir til fimm ára lækka um 0,75 prósentustig og verða 1,49%. Þetta kemur fram á vef bankans en allar vaxtabreytingarnar taka gildi í dag, 22. febrúar. Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentustig þann 9. febrúar. Breytilegir óverðtryggðir innlánavextir Arion banka hækka ýmist um allt að 0,75 prósentustig eða haldast óbreyttir. Vextir á veltureikningum haldast til að mynda óbreyttir.
Yfirdráttarvextir hækka um 0,75 prósentustig
Almennir óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,50 prósentustig og verða 5,90%. Almennir verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,10 prósentustig og verða 3,40%. Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka um 0,75 prósentustig. Kjörvextir bílalána hækka um 0,50 prósentustig og verða 6,30%. Að sögn Arion banka taka vaxtabreytingar útlána mið af fjármögnunarkostnaði bankans á hverjum tíma en einnig af öðrum þáttum á borð við útlánaáhættu.
Fjármögnunarkostnaður bankans fylgi að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans en einnig hafi aðrar fjármögnunarleiðir umtalsverð áhrif, svo sem innlán viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlend skuldabréfaútgáfa og eiginfjárgerningar.
Stjórn Arion banka leggur til á aðalfundi í mars að greiddur verði 22,5 milljarða króna arður til hluthafa. Bankinn hagnaðist um 28,6 milljarða króna á síðasta ári að því er kemur fram í frétt um málið á Vísi.is.
https://gamli.frettatiminn.is/21/02/2022/husaleiga-haekkar-hratt-eltir-haekkanir-a-fasteignamarkadi/