Ég sakna Covid núna
Ég verð að segja það að ég sakna Covid tímans, þegar maður fréttir af bruðlinu í sambandi við botnlausar utanlandsferðir ríkisstarfsmanna. Sem njóta lífsins á glæsihótelum, í fríu fæði og á bullandi dagpeningum í útlöndum út af öllu og engu, líklega oftar en ekki, út af engu.

Þegar Covid var hér og hét, þurfti enginn ríkisstarfsmaður að fara til útlanda enda tæknin núna allt önnur en fyrir t.d. 20 árum. Núna er hægt að afgreiða allt í gegnum netfundi og fólk afgreiðir almennt öll sín mál á netinu með rafrænum skilríkjum. Maður þarf m.a.s. sjálfur að afgreiða sig í matvöruverslunum og á bensínstöðvum. Mannshöndin og ferðalög til að hitta fólk í útlöndum er liðin tíð.
Katrín Jakobsdóttir sem gefur sig út fyrir að stýra grænum vinstri flokki, virðist vera á annari skoðun hvað þetta varðar. Það er oft allt annað í orði en á borði á þeim bæ og fylgishrunið í takt við það. Hvað varð um grænu byltinguna?
Hvað eru þetta margar þotur og einkaþotur sem koma til landsins frá þessum 46 löndum sem taka þátt í kokteilboði hennar hér á Íslandi með tilheyrandi glamúr og löggæslu? Í lögsögu Íslands eru nú kjarnorkukafbátar og hafa fullt og ótakmarkað leyfi Katrínar, án takmarkana á fjölda, kjarnorku herskipa frá USA. Hvað varð um áhyggjur VG af umhverfismálunum? Á sama tíma þorir venjulegt fólk ekki að biðja um plastpoka því þá verður heimsendir skv. boðskapi þessa sama fólks.
„Já, þetta er mjög óvenjulegt. Þetta er í raun og veru bara fjórði leiðtogafundurinn í sögu Evrópuráðsins. Sem er auðvitað stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Þarna koma saman 46 ríki og nú er verið að kalla leiðtoga þessara ríkja saman vegna stöðunnar í Evrópu. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Það er tilefnið,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í fréttum í dag.
Hefði ekki bara verið hægt að sleppa þessu meiriháttar bulli alveg, upp á tvo milljarða og styrkja þá sem þurfa á þesssum peningum að halda á Íslandi? Til vara, er ekki bara hægt að skella í stuttan fund á netinu um þetta mál sem hefur verið til umræðu um allan heim í tvö ár, þar sem ekkert er enn ósagt?