Ásdís Rán Gunnarsdóttir, ísdrottningin sjálf hefur klárað meðmælasöfnunina fyrir forsetakosningarnar, það styttist í að baráttan byrji fyrir alvöru og segir Ásdís Rán að hún sé að brjóta blað í sögunni með því að taka þátt.
,,Það hafa margir klórað sér í hausnum yfir þátttöku minni í forsetakosningunum þar sem ég stíg nú eins og landkönnuður á nýjum slóðum og tek með mér ný og fersk sjónarhorn, smá húmor og djúpstæða trú á mátt hins ómögulega. Ég er ekki hinn hefðbundni frambjóðandi en ég er án efa ferskur blær inn í flokk frambjóðenda og það er einmitt það sem gerir þetta stóra verkefni svo skemmtilegt og hvetjandi.“
Boðskapurinn sem ég kem með er: Allt er mögulegt, sama hver þú ert eða hvaðan þú kemur – bara ef þú bara þorir!
,,Við vitum það öll að gleði ásamt smá von er besta lyfið og við þurfum góðan skammt af því í okkar skammdegi, kulda og pólitíska umhverfi! Við saman erum hjarta og sál þessarar þjóðar og með samstöðu vöxum við í átt að bjartri framtíð og spennandi nýjum tímum.
Mín kenning er að við þurfum ekki fleiri pólitíkusa eða valdafólk í stöðu forseta Íslands. Forsetinn okkar á að vera ópólitískur, mannlegur og gæddur miklum persónutöfrum, hann þarf að vera trúr og traustur sinni þjóð, með kjark til að standa upp þegar á móti blæs. Hann þarf að getað hlustað á fólkið sitt og vera óhræddur með sterka rödd til að vekja athygli á því sem betur má fara.“
Ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir hefur verið ein umtalaðasta manneskja Íslands um árabil. Henni skaut hratt upp á sjónarsviðið þegar hún var ung að aldri og síðan hefur hún meira og minna verið í sviðsljósinu. Í þættinum ræða Sölvi og Ásdís um forsetaframboðið árin í Búlgaríu, dularfulla sögur úr fyrirsætubransanum og margt fleira.