Ég var “óheppin” með dómara
.
Arnþrúður Karlsdóttir á útvarpi Sögu, hefur staðið í dómsmáli að undanförnu vegna ágreinings um greiðslu sem að barst frá áheyranda stöðvarinnar. Um var deilt hvort að um lán hefði verið að ræða en enginn lánasamningur var þar um, eða styrkur. Arnþrúður lýsir sinni hlið málsins á vef stöðvarinnar og til þess að gæta nákvæmni eru málavextir og skýringar birtar orðrétt hér eftir.
.
,,Arnþrúður! “Ég skal rústa mannorði þínu í öllum fjölmiðlum landsins ef þú fellst ekki á að kalla styrkinn, lán sem tengdamóðir mín lét til útvarpsstöðvarinnar á síðasta ári. Ég þekki til á fjölmiðlunum og skal sjá til þess að þú fáir útreið hjá þeim” þannig hljómuðu orð Telmu Cristel Johnsen í símtali sem ég fékk þann 10. apríl 2017.
Tilefni þess að ég tel ástæðu til að segja frá þessu núna er að í síðustu viku féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þess efnis að mér var gert að greiða 3.3milljónir króna til Guðfinnu Karlsdóttur og því haldið fram að hér væri um lán að ræða en Guðfinna hafði gerst styrktaraðili Útvarps Sögu í apríl 2016. Guðfinna hafði ítrekað pantað tíma hjá mér sem útvarpsstjóra en hún hafði ákveðið að bætast í hóp stuðningsmanna Útvarps Sögu þar sem hún væri hlustandi til margra ára og vildi sýna þakklæti sitt. Hún lagði á það áherslu að nafni hennar væri haldið leyndu og hún vildi hafa þetta með sínu lagi sem og hún svo sannarlega gerði. Eftir einn og hálfan mánuð hafði hún lagt inn 2.5 milljónir króna, án minnar vitundar inná bankareikning á mínu nafni í Landsbankanum.
Guðfinna gaf þá skýringu að henni hefði tæmst verulega hár arfur og þetta væri hennar ákvörðun í alla staði. Ástæða þess að hún hefði lagt fjármunina inná minn reikning væri til þess að nafn hennar kæmi ekki fram í gögnum útvarpsstöðvarinnar. Þessi styrkur hennar var allur millifærður á rekstrareikning Útvarps Sögu. Hafði ég enga ástæðu til að efast um þessa skýringu hennar enda kom Guðfinna vel fyrir. Hún var 57 ára gömul og sagðist vera ein og hefði ekki fyrir neinum að sjá og ég var algjörlega grunlaus um að þarna væri eitthvað annað á ferðinni.Aldrei var talað um lán enda enginn lánasamningur gerður né nokkuð annað sem gaf til kynna að ætlast væri til gagngjalds.
Bað um að mannorð fasteignasala yrði eyðilagt.
Skömmu eftir þetta kom Guðfinna á Útvarp Sögu og bað mig að skoða fyrir sig gamalt dómsmál frá 2007 sem hún hefði tapað í ágreiningi útaf fasteignakaupum. Fasteignasalinn sem átti hlut að máli hafði verið nokkuð í umræðunni í tengslum við framboð Guðna Th. Jóhannessonar en forsetakosningarnar voru í gangi á þessum tíma. Guðfinna vildi að Útvarp Saga tæki upp þetta gamla dómsmál til umfjöllunar í dagskrá sinni og fór fram á það við mig að ég “ gengi frá fasteignasalanum” með umfjöllun um hann sem hún hélt fram að hefði svikið sig í fasteignaviðskiptum. Eftir að hafa lesið málið ítrekað yfir gat ég ekki séð að það væri nokkur flötur á umfjöllun um málið í fjölmiðlum. Ég sagði Guðfinnu frá þessari niðurstöðu minni að Útvarp Saga tæki ekki þetta mál til umfjöllunar og við tækjum ekki að okkur rógsherferðir gegn fólki. Þá sagðist hún ætla að greiða meira til stöðvarinnar því hún væri að fá enn meiri arfgreiðslur en ég svaraði henni alveg ákveðið að Útvarp Saga seldi ekki níðumfjöllun ef hún héldi það. Ég benti henni á að leita til Húseigendafélagsins og reyna að fá lögfræðilega ráðgjöf þar til að leysa úr ágreiningi vegna fasteignamála. Útvarp Saga kæmi ekki nálægt þessu og gerði ekki.
Við svo búið heyrðist ekkert frá Guðfinnu Karlsdóttur fyrr en 4 mánuðum síðar þ.e. í mars 2017 og sagði hún mér þá í símtali að tengdadóttir hennar og sonur væru að leggja líf hennar í rúst og væru að yfirtaka alla hennar fjármuni og vildu stjórna öllum áformum hennar. Í kjölfar þess fékk ég þetta ónotalega símatal frá verðandi tengdadóttur hennar, Telmu Cristel sem að framan greinir. Ég hafði aldrei áður orðið fyrir kúgun. Guðfinna framseldi innheimtu málsins, með umboði til sonar síns en þrátt fyrir það var mér stefnt í nafni hennar.
Ætlaði að kaupa níðumfjöllun
Þegar dómsmálið var til aðalmeðferðar sagði Guðfinna að hún hefði ákveðið að fara á Útvarp Sögu vegna svikamáls sem hún hefði orðið fyrir í fasteignaviðskiptum sem staðfestir að hún ætlaði að “kaupa” sér níðumfjöllun um fasteignasalann. Það lá sem sagt fyrir við aðalmeðferð málsins. Hún viðurkenndi að enginn lánasamningur væri til staðar og þaðan af síður samningur um vexti sem er grundvallaratriði ef um lánsviðskipti er um að ræða. Þá neitaði hún að leggja fram skattskýrslu máli sínu til stuðnings.
Guðfinna ekki með nein sönnunargögn
Ég lagði fram sönnunargögn frá Landsbankanum sem sýndu fram á að þessir fjármunir sem Guðfinna hafði lagt inná bankareikning minn höfðu verið millifærðir inná rekstrarreikning Útvarps Sögu. Vitni í málinu staðfestu að þau þekktu Guðfinnu sem styrktaraðila Útvarps Sögu. Það var augljóst að enginn lánasamningur eða umræða um hugsanlegt lán var til staðar. Það lá algjörlega ljóst fyrir að hér var um styrk til útvarpsstöðvarinnar að ræða. Öll þessi atriði og fleiri komu fram við aðalmeðferð málsins.
Þrátt fyrir það komst Daði Kristjánsson nýskipaður héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að um lán hefði verið að ræða. Dómurinn er mjög illa rökstuddur ef þá nokkuð og ber með sérkennilega þekkingu á meðferð einkamála og öllu mati á sönnunarfærslum. Í stefnu málsins er einungis talað um að þetta sé lán. Enginn málsgrundvöllur er útskýrður eða málsatvik rakin eins og ber að gera í stefnu. Enginn sönnunargögn voru lögð fram af hálfu stefnanda einungis bankakvittanir hennar sem voru ekki í samræmi við stefnu málsins. Það var með öðrum orðum allt fullt af frávísunarástæðum sem dómarinn hefði mátt sjá ef nægjanleg þekking hans og reynsla af dómarastörfum hefði verið til staðar.
Settur ráðherra vildi ekki ráða Daða sem héraðsdómara
Mér er ljóst í dag að ég var greinilega “óheppin” með dómara. Í janúar s.l. vildi settur dómsmálaráðherra ekki fallast á ráðningu Daða Kristjánssonar við Héraðsdóm þar sem hann uppfyllti ekki þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin skv. lögum um dómstóla. Settur dómsmálaráðherra lýsti því í harðorðu bréfi til matsnefndar að hann hefði áhyggjur af því að reynsla Daða Kristjánssonar væri ofmetin. Til að leysa langvarandi deilu útaf skipun dómara lét settur dómsmálaráðherra undan þrýstingi og skrifaði undir skipun Daða sem héraðsdómara með óbragð í munninum eins og það var orðað. Það er alvarlegt þegar þeir sem þurfa að leita atbeina dómstólanna geta ekki treyst því að dómarar hafi ekki nægjanlega þekkingu eða reynslu af dómarastörfum. Sömuleiðis er það alvarlegt þegar dómarar láta andúð sína á málsaðilum ráða niðurstöðu máls. Dómarar hafa þá skyldu að dæma einungis samkvæmt lögum og stjórnarskrá. Grundvöllurinn fyrir réttarríki eru heiðarlegir dómendur sem fara að lögum. Það er óhugnarleg lífsreynsla að upplifa að það sé eins og að vinna í happdrætti hvort dómari fari eftir lögum eða ekki. Ég hef ákveðið að áfrýja þessu máli til Landsréttar.“ Segir Arnþrúður Karlsdóttir um málið.
Umræða