Landspítalinn – Spítali allra landsmanna
Þorsteinn Ari Hallgrímsson skrifar
Fjölmargar álitsgerðir um staðsetningu Landspítalans voru gerðar á árunum 2001-2008. Niðurstaða þeirra flestra var að hagkvæmast væri að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað. Ef ekki væri mögulegt að finna sjúkrahúsinu nýjan stað, þyrfti að byggja það í Fossvogi eða við Hringbraut.
Sú hugmynd að byggja spítalann við Hringbraut er byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur frá árinu 2001, en tímarnir hafa svo sannarlega breyst á 17. árum. Í dag árið 2018 hefur umferðin í nágrenni við Hringbraut aukist gríðarlega, bæði er búið að byggja Háskólann í Reykjavík með í kringum 3500 nemendur og túrismi hefur aukist, en í dag eru hátt í 5 þúsund hótelherbergi í Reykjavík auk íbúðargistingar og fer sú tala hækkandi – Forsendur aðalskipulags Reykjavíkur varðandi spítalann eru augljóslega brostnar.
Núverandi hugmyndir um Landspítalann gera ráð fyrir að nýta núverandi byggingar spítalans við Hringbraut að hluta til. Þær byggingar uppfylla hins vegar ekki byggingarstaðla nýrra sjúkrahúsa og eru báðar sýktar af myglu og rakaskemmdum. Slíkt er varla boðlegt fyrir starfsfólk spítalans og veika landsmenn sem hafa ekki val um annað.
Að undanförnu hefur mikið verið rætt um borgarlínu sem sýnir enn fremur hvað aðalskipulag Reykjavíkur er hrunið. Ljóst er að umferðarþungi mun aukast enn frekar á næstu árum í nágrenni Landspítalans. Þá er einnig áætlað að sameina spítalana við Fossvog og Hringbraut, en þá verða starfsmenn í kringum 3000 í dagvinnu frá 8-16. Bílastæðin eiga hins vegar aðeins að vera 1700 talsins skv. skipulagi og er þá ekki búið að gera ráð fyrir sjúklingum, aðstandendum og þeim fjölmörgu aðilum sem að rekstri spítalans koma.
Ef spítalinn yrði byggður á Vífilsstöðum væri hægt að byggja nýjan og glæsilegan spítala frá grunni án þess að raska starfseminni við Hringbraut. Auðvelt væri að byggja upp aðstöðu fyrir þyrlur LHG og allt aðgengi til og frá spítalanum yrði mun betra. Spítali á Vífilsstöðum yrði staðsettur í miðju höfuðborgarsvæðisins með góðar tengingar við stofnbrautir.
Að hafa gott og greitt aðgengi að spítala er lykilatriði fyrir sjúklinga og sjúkraflutninga, því að hver mínúta skiptir máli þegar um heilsu fólks er að tefla – Miðflokkurinn í Garðabæ ætlar að hefjast strax handa við að leita allra mögulegra leiða til að nýr spítali verði byggður á Vífilsstöðum, nútímalegan og vel búinn spítala sem Íslendingar geta verið stoltir af.
Þorsteinn Ari Hallgrímsson
Höfundur situr í 10. sæti á lista Miðflokksins í Garðabæ.