Sumarið er tími framkvæmda þegar gatnakerfið er annars vegar og þegar má sjá vinnuflokka víða að störfum.
Vegfarendur eru því beðnir um að fara sérstaklega varlega þar sem framkvæmdir standa yfir, en í dag verður fræsað og malbikað á ýmsum stöðum í umdæminu. Þar má nefna frárein af Skeiðarvogi niður á Miklubraut til austurs, hringtorg á Vífilsstaðavegi við Vífilsstaði, Kleppsmýrarvegur (á milli Sæbrautar og Súðarvogs), vestast í Borgartúni (meðfram kínverska sendiráðinu) og austast í Borgartúni síðdegis og fram á kvöld.
Innbrot í Kópavogi
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar innbrot í nýbyggingu í Dalbrekku 2-14 í Kópavogi, en tilkynnt var um málið í gær. Þar var stolið miklu af verkfærum og byggingarefni og hleypur tjónið á milljónum króna. Unnið var í húsinu fram til kl. 17 á laugardag og því hefur innbrotið átti sér stað einhvern tímann á því bili og fram á mánudagsnóttina. Þeir sem geta varpað ljósi á málið eru beðnir um að senda upplýsingar til lögreglunnar í tölvupósti á netfangið adalsteinna@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu embættisins, auk þess sem tekið er við ábendingum í síma 444 1000. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af þeim verkfærum sem var stolið í innbrotinu.