Karlmaður á sjötugsaldri er í haldi lögreglu eftir aðgerðir hennar í og við fjölbýlishúsi á Miðvangi í Hafnarfirði í dag. Grunur leikur á að maðurinn, sem er íbúi í húsinu, hafi skotið á kyrrstæða bifreið sunnan megin við fjölbýlishúsið, en tilkynning þess efnis barst á áttunda tímanum í morgun.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var strax kölluð til vegna alvarleika málsins, en hún handtók manninn í hádeginu. Hann kom sjálfviljugur út úr íbúðinni og veitti ekki mótspyrnu við handtökuna. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.
Viðbúið er að mál eins og þetta vekji upp ótta og skapi vanlíðan hjá fólki og því vill lögreglan benda á hjálparsíma Rauða krossins, 1717, en hann er opinn allan sólarhringinn.
Umræða