Ein líkamsárás var kærð til lögreglu í Vestmannaeyjum, skv. frétt Eyjafrétta, eftir skemmtanahald helgarinnar. En þarna hafði maður sem var eitthvað ósáttur slegið annan í andlitið þannig að tönn losnaði. Árásarmaðurinn var handtekinn og var vistaður í fangageymslu. Skýrsla var tekin af árásarmanninum eftir að víman rann af honum. Málið er í rannsókn.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna hraðaksturs um helgina en hann mældist á 70 km/klst. á Hamarsvegi en þar er hámarkshraði 50 km/klst. Þrír ökumenn fengu sekt vegna ólöglegrar lagningar, einn fyrir að nota ekki öryggisbelti í akstri og þá fengu tveir ökumenn sekt fyrir akstur án réttinda.
Ekki mikið tjón
Síðdegis þann 18. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um eld í þaki frystigeymslu Vinnslustöðvarinnar á Eiði. Þarna hafði kviknað í tjörupappa þegar verið var að bræða hann saman og læstist eldurinn í þaksperrur. Greiðlega tókst að slökkva eldinn og varð ekki mikið tjón af völdum hans að sögn Eyjafrétta.