Í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar 27. september 2018 í svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmáli skipaði forsætisráðherra nefnd til að leiða viðræður og sáttaumleitanir við þá sem sýknaðir voru sem og aðstandendur þeirra sem látnir voru en sýknaðir í sama dómi. Kristrún Heimisdóttir var formaður nefndarinnar en þar voru einnig fulltrúar dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Jafnframt var Andri Árnason lögmaður settur sem ríkislögmaður til að fara með meðferð bótakrafna í þessu máli.
Nefndin skilaði af sér 3. júní sl. Kom fram að sáttaumleitanir hefðu ekki borið árangur, að minnsta kosti væru ekki horfur á að hægt væri að ná sátt við alla aðila málsins.
Málið er því nú fyrst og fremst í höndum setts ríkislögmanns. Hann er að undirbúa greinargerð í máli sem Ragnar Aðalsteinsson lögmaður hefur höfðað fyrir hönd Guðjóns Skarphéðinssonar. Þá er mál Erlu Bolladóttur og erindi annarra, sem tengjast málinu, samhliða til skoðunar hjá settum ríkislögmanni.
Af hálfu stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að ríkið væri tilbúið að semja um sanngjarnar bætur til þeirra sem sýknaðir voru og aðstandenda þeirra sem fallnir eru frá og afla til þess viðeigandi lagaheimildar. Ríkisstjórnin mun halda áfram athugun á slíkri lausn, sem aðilar gætu verið sáttir við.