Matvælastofnun varar enn við hættu á fuglaflensusmiti frá villtum fuglum yfir í alifugla. Stofnunin lítur svo á að smit með skæðum fuglaflensuveirum sé viðloðandi í villtum fuglum víða á landinu. Þó hafa færri veikir eða dauðir villtir fuglar verið tilkynntir til Matvælastofnunar í júlí og það sem af er ágúst en mánuðina á undan.
Kríur hafa bæst á lista þeirra tegunda sem hafa greinst með fuglaflensu. Í júlí fundust veikar kríur á Höfn í Hornafirði. Rannsókn leiddi í ljós að þær voru smitaðar af skæðri fuglaflensu af gerðinni H5N1, en þessi gerð hefur greinst í 90% jákvæðra sýna það sem af er (27/30). Nú liggur fyrir staðfesting á skæðri fuglaflensu í kríum, en einungis 7 tilkynningar um 9 dauðar kríur hafa borist Matvælastofnun það sem af er ári og því erfitt að segja til um hvort og þá hvaða áhrif smitið muni hafa á kríustofninn.
Frá því í júlí hafa í auknum mæli borist tilkynningar frá almenningi um veikar og dauðar súlur á Austurlandi og er líklegt að þær hafi drepist úr fuglaflensu. Á árinu hafa Matvælastofnun borist tilkynningar um rúmlega 450 veikar eða dauðar súlur á öllu landinu og má ætla að mun fleiri hafi drepist. Einnig hefur orðið vart við aukin dauðsföll í skúmum og helsingjum í sumar á Suðaustur- og Austurlandi og liggur fyrir greiningar á fuglaflensu í þessum fuglategundum.
Matvælastofnun telur því að smithætta af fuglaflensuveiru frá villtum fuglum yfir í alifugla sé óbreytt. Þess vegna er nauðsynlegt að hertar varúðarráðstafanir séu áfram í gildi og má búast við að þær munu gilda fram að vetri. Matvælastofnun mun áfram vakta smit í villtum fuglum og endurskoða mat sitt ef í ljós kemur að smit er að fjara út í villtum fuglum.
Matvælastofnun vill enn á ný ítreka beiðni til almennings um að tilkynna stofnuninni um veika og dauða villta fugla sem finnast. Þetta er mikilvægur liður í því að fylgjast með þróun og útbreiðslu hins skæða afbrigðis fuglaflensuveirunnar. Ekki er mögulegt að taka sýni úr öllum fuglum sem tilkynnt er um en þeir eru allir skráðir og sérfræðingar stofnunarinnar meta hvort ástæða sé til að taka úr þeim sýni. Besta leiðin til að tilkynna er að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar en einnig er hægt að hringja í síma 530 4800 á opnunartíma stofnunarinnar eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Um veika villta fugla skal tilkynna til viðkomandi sveitarfélags, sem samkvæmt lögum um velferð dýra er skylt að sjá til þess að fuglinum sé komið til hjálpar eða hann aflífaður á mannúðlegan hátt. Utan opnunartíma sveitarfélaga er hægt að hafa samband við lögreglu.
Fuglaflensa – upplýsingasíða Matvælastofnunar