Í nýju frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að um 100 milljörðum króna verði varið í fjárfestingar á komandi ári. Fjárfesting verður þannig áfram yfir langtímameðaltali, en stærsta einstaka byggingarframkvæmdin er bygging Nýs Landspítala, sem áætlað er að verja um 13,4 milljörðum króna til á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir um 11,8 ma.kr. til endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði og 1,5 ma.kr. í tengivegi, svo fátt eitt sé nefnt. Af verkefnum í fjárfestingarátaki 2021–2023 má til að mynda nefna Samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila, samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu ásamt áframhaldandi fjárfestingu í upplýsingatækni til að bæta þjónustu ríkisins.
108 milljarðar í tveimur áföngum
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra ræddi fyrirhugaða fjárfestingu á komandi ári þegar hann kynnti nýlega fjárlagafrumvarpið og setti í samhengi við söluandvirði Íslandsbanka hingað til, en hlutir í bankanum hafa verið seldir í tveimur áföngum, árið 2021 og 2022 fyrir alls um 108 milljarða króna. „Það er hægt að segja sem svo að það virði sem við losuðum úr Íslandsbanka í þessum tveimur umferðum jafnist á við alla fjárfestingu ríkisins á næsta ári,“ sagði Bjarni. Eftirstandandi hlutur í bankanum gæti fjármagnað allar fjárfestingar ríkisins á einu ári. „Hinn kosturinn væri að taka fyrir því lán,“ sagði ráðherra.
Heildarumfang fjárfestinga og fjármagnstilfærslna í fjárlögum 2023 er rúmlega 100 ma.kr., eða um 2,6% af VLF. Ríkisstjórnin hefur á síðustu árum notað opinbera fjárfestingu til að vinna gegn þeim miklu sveiflum sem hafa átt sér stað í hagkerfinu. Til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum af heimsfaraldri kórónuveiru réðust stjórnvöld í fjárfestingar- og uppbyggingarátak. Samtals var miðað við að um 120 ma.kr. yrði varið á árunum 2020–2025 í tengslum við átakið og þar af um 23 ma.kr. á árinu 2023. Í því fólst lækkun um 2 ma.kr. á milli ára í samræmi við áherslur um að mestur þungi væri í átakinu í upphafi þegar þörfin var mest.
Frestanir til að sporna gegn þenslu
Samgönguframkvæmdir voru umfangsmestar í upphafi átaksins þar sem aðrar fjárfestingar, svo sem nýbyggingar, kalla á lengri undirbúningstíma og kostnaður vegna þeirra er því þyngri á seinni hluta tímabilsins. Hröðum efnahagsbata árið 2022 hefur fylgt vaxandi verðbólga, en ríkisstjórnin réðst því í aðgerðir til að vinna gegn þenslu og verðbólgu með breytingum í 2. umræðu fjármálaáætlunar 2023–2027. Í þeim aðgerðum var fjárfestingarverkefnum og verkáföngum, sem nemur tæplega 10 ma.kr., frestað þar sem færi gefst á að afla hagstæðari tilboða síðar í ljósi mikilla umsvifa á byggingarmarkaði.