Ríkisstjórnin sturtar hundruðum milljarða í vaskinn – vókisminn og popúlisminn er plágan
Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin kýs að ráðstafa fjármunum skattgreiðenda. Nú síðast var ákveðið að verja 100 milljörðum króna til uppkaupa á fasteignum í Grindavík. Þessi ákvörðun er ekki aðeins dýr; hún er söguleg sóun ef hún er borin saman við hvernig tekið var á eldgosi í Vestmannaeyjum fyrir rúmum fimmtíu árum.
Þá, þegar Heimaey gaus, var hvorki slökkt á loðnubræðslu né frystihúsum. Lífið og atvinnan héldu áfram, þrátt fyrir að aska og hraun færi yfir bæinn. Hvað hefði verið sagt þá, ef stjórnvöld hefðu skipað öllum Eyjamönnum að yfirgefa eyjuna án tafar? Slíkur boðskapur hefði verið talinn fráleitur og jafnvel ástæða til að leggja boðberann inn á stofnun. Hver er staðan í Vestmannaeyjum í dag?
Þá er eftirtektavert hvernig stjórnmálamenn þess tíma byggðu heilu hverfin í nokkrum sveitarfélögum um allt land fyrir þá eyjamenn sem vildu flytja upp á land. Vók-liðið í dag var úrræðalaust og verklaust með öllu en hélt marga glærufundi til að greina vandann og tala um hann í nefndum. Hræðsla og panik var það sem einkenndi viðbrögðin og hversu mikið var lagt í að verja Bláa lónið sem og orkuver sem er einkavinarekstur útlendinga sem eiga þá auðlind þjóðarinnar.
Hér blasir við augljós tvískinnungur: Í dag er samfélagið fljótt að hlaupa til, loka heilu bæjarfélagi og henda hundruðum milljarða út í loftið. Þetta er ekki skynsemi, þetta er hræðsluáróður og stjórnmálaleg sýndarmennska. Það er ekkert að í Grindavík, ég hef skoðað svæðið nokkrum sinnum og það er sorglegt að sjá tóm hús, skólabyggingar og fyrirtæki á svæðinu.
Það átti aldrei að láta fólk, fjölskyldur og fyrirtæki yfirgefa þetta blómlega bæjarfélag sem hefur verið mjólkurkú fyrir ríkiskassan frá því Grindavík byggðist. Ein stærsta verstöð landsins lögð í rúst með einu pennastriki af vókliði sem er algjörlega vanhæft að hugsa rökrétt. Hvílík skömm, hvílík sóun!

En þetta er aðeins annar hluti vandans. Hinn hlutinn eru loftlagssjóðir. Ríkisstjórnin setur 140 milljarða í botnlausa tunnu sem aldrei sýnir raunverulegan árangur. Þeir peningar fara í verkefni sem breyta engu um hita jarðar sem hefur sveiflast til og frá, frá örófi alda. Hitastig hefur gengið í bylgjum allt frá því jörðin varð til. Þeir sem fullyrða annað eru að verja eigin stöðu og launaseðil.
„Sjáið! Loftslagsbreytingar!“
Við skulum rifja upp að frostaveturinn mikli 1918 skall á löngu áður en þessi svokallaða „loftslagsbarátta“ hófst. Þá var kuldinn slíkur að land og þjóð áttu í raunverulegri lífsbaráttu með 24,5 stiga frost í Reykjavík og 38 stiga frost á Grímsstöðum. Ef sambærilegur vetur kæmi í dag myndu vafalaust koma hrópin úr röðum vókistastjórnmála: „Sjáið! Loftslagsbreytingar!“ – þótt sagan segi okkur að slíkt hafi alltaf gerst undanfarin milljón ár.
Vopnakaup og stríðsrekstur okkar herlausu þjóðar upp á hundruði milljarða er svo efni í annan pistil en þar er sami vók og popúlisminn á ferð í hlutlausu og herlausu landi sem á ekki að skipta sér af því sem því kemur ekkert við. Hvað kostaði svo Covid pestin og hverjir græddu á henni?
Þannig blasir við sú niðurstaða að vókisminn er plágan sem étur sig inn í samfélagið. Hann réttlætir sóun, sýndarmennsku og stjórnmálalegt gaspur sem kosta skattgreiðendur mörg hundruð milljarða. Ef þjóðin ætlar sér að lifa áfram af eigin styrk og skynsemi þarf að taka á þessari plágu og af alvöru.
24,5 stiga frost í Reykjavík og 38 stiga frost á Grímsstöðum – Veðurfar og hamfarir