Samtals voru 207.100 (± 6.600) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára að jafnaði á vinnumarkaði í september 2020 samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands en það jafngildir 79,2% (±2,5) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 198.500 (±5.200) hafi verið starfandi og 8.500 (±2.700) án atvinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 76,0% (±2,6) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 4,1% (±1,3). Áætlað er að 54.300 (±6.000) einstaklingar hafi verið utan vinnumarkaðar í september 2020 eða 20,8% af mannfjölda. Samanburður við september 2019 sýnir að atvinnuþátttaka hefur dregist saman um 0,9 prósentustig á milli ára og atvinnuleysi aukist um 0,8 prósentustig. Hlutfall starfandi hefur lækkað um 1,5 prósentustig á milli ára og hlutfall utan vinnumarkaðar aukist um 0,8 prósentustig.
Samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum voru 9.900 einstaklingar atvinnulausir í september 2020 eða um 4,9% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 80,2% og árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi 75,7%. Borið saman við ágúst 2020 dróst árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi hvort um sig saman um 0,6 prósentustig um leið og atvinnuleysi dróst saman um 1,1 prósentustig. Síðustu 6 mánuði hefur leitni árstíðarleiðréttingar á hlutfalli starfandi fólks lækkað um 0,3 prósentustig og leitni hlutfalls atvinnulausra hækkað um 1,5 prósentustig, úr 4,1% í apríl í 5,6% nú í september.
Vinnumarkaðsrannsóknin á tímum kórónuveirunnar
Ljóst er að kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað árið 2020. Vinnustöðum hefur verið lokað vegna samkomubanns, fjöldi fólks hefur misst vinnu eða ekki fengið ráðningarsamning endurnýjaðan og aðrir hafa misst af tækifæri til þess að hefja starf í nýrri vinnu. Síðan áhrifa faraldursins fór að gæta hefur vinnumarkaðurinn tekið miklum breytingum og óvissan sem fylgir breytingunum haft áhrif á mælingar vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Áhrif breyttra aðstæðna má sjá í mismunandi mælingum sem tengjast ólíkum skilgreiningum á hugtakinu atvinnuleysi.
Mikilvægt er að hafa í huga að við núverandi aðstæður á vinnumarkaði er líklegt að nokkur fjöldi einstaklinga, sem í daglegu tali væru sagðir atvinnulausir, uppfylli ekki skilgreiningu vinnumarkaðsrannsóknarinnar á atvinnuleysi. Til þess að einstaklingur teljist atvinnulaus í vinnumarkaðsrannsókn þarf viðkomandi að vera 1) án vinnu, 2) í virkri atvinnuleit og 3) geta hafið störf innan tveggja vikna. Til dæmis er ekki augljóst að einstaklingur sem er án vinnu, eða veit ekki hvort hann haldi vinnu sinni, hefji strax leit að nýrri vinnu þegar vinnustaðir hafa lokað og fjölmennar atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu hafa dregist saman á síðustu mánuðum. Að sama skapi er ekki ljóst hvort einstaklingur í atvinnuleit telji sig geta hafið störf innan skamms tíma ef óvissa ríkir um ráðningarsamband við fyrri atvinnurekanda.
Í úrtaki vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar í september 2020 voru 94 einstaklingar jafnframt á skrá hjá Vinnumálastofnun og var svarhlutfall þeirra 53,2%. Af þessum 94 einstaklingum voru 78% almennt atvinnulausir en 22% í minnkuðu starfshlutfalli og teljast starfandi í vinnumarkaðsrannsókn. Af þeim sem voru almennt atvinnulausir samkvæmt Vinnumálastofnun og svöruðu í vinnumarkaðsrannsókn voru 55,6% atvinnulausir samkvæmt skilgreiningu vinnumarkaðsrannsóknar, 25% voru starfandi og 19,4% töldust utan vinnumarkaðar. Svarhlutfall þeirra sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun er 13,5 prósentustigum lægra en svarhlutfall annarra sem var 66,7%.
Þetta bendir til þess að þeir sem eru á atvinnuleysisskrá séu ólíklegri til að svara spurningalista rannsóknarinnar en þeir sem ekki eru á skrá. Slík brottfallsskekkja kann að leiða til vanmats á atvinnuleysi í vinnumarkaðsrannsókn. Vert er að hafa í huga að viðmiðunardagur vinnumarkaðsrannsóknar er um miðbik mánaðar en gögn frá Vinnumálastofnun sýna stöðuna í lok mánaðar og má leiða líkur að því að einhverjir sem eru starfandi um miðjan septembermánuð geti verið atvinnulausir í lok mánaðar. Niðurstöðurnar sýna einnig að tæpur fimmtungur þeirra sem falla undir almennt atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun eru skilgreindir utan vinnumarkaðar samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn og falla þá í hóp þeirra sem hafa ómætta þörf fyrir atvinnu.
Slaki á vinnumarkaði (e. labour market slack) endurspeglar ómætta þörf fyrir atvinnu, umfram atvinnuleysi, bæði hjá þeim sem eru á vinnumarkaði og hjá þeim sem eru utan hans. Til að teljast til vinnuaflsins samkvæmt skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) þarf viðkomandi að vera starfandi eða atvinnulaus en skilgreiningin á atvinnuleysi í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar hefur verið sú sama frá upphafi og byggir á skilgreiningu ILO. Ómætt þörf fyrir atvinnu endurspeglar atvinnulausa og hlutastarfsfólk sem vill vinna meira en einnig þá sem ekki teljast til vinnuaflsins þar sem þeir uppfylla ekki eitt af þremur skilyrðum atvinnuleysis; það er einstaklingar án vinnu en ekki að leita eða einstaklingar án vinnu sem geta ekki hafið störf innan skamms. Í þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru á vinnumarkaði má ætla að þessar aðstæður eigi við um marga enda hefur slaki á íslenskum vinnumarkaði ekki mælst hærri síðan árið 2015 samkvæmt mánaðarlegum tölum vinnumarkaðsrannsóknarinnar, samanber mynd 1. Allar fjöldatölur eru vigtaðar eftir aldri og kyni og námundaðar að næsta hundraði.
Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir september 2020 ná til fjögurra vikna eða frá 31. ágúst til 27. september. Í úrtak völdust af handahófi 1.539 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára sem höfðu lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.497 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 986 einstaklingum sem jafngildir 65,9% svarhlutfalli.