Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, vígði í gær nýtt úrræði, Batahús, fyrir konur sem lokið hafa afplánun. Um er að ræða áfangaheimili og stuðningsúrræði fyrir konur sem verið hafa í réttarvörslu og þarfnast stuðnings við að verða virkir þátttakendur í samfélaginu á ný.
Guðmundur Ingi benti í ávarpi sínu við opnunina á að löngu tímabært væri að konum stæði til boða úrræði sem þetta og lagði áherslu á mikilvægi þess að þær upplifðu sig öruggar, fengju stuðning og ráðgjöf og ekki síst tækifæri til sjálfsstyrkingar og valdeflingar. Margt við lestur nýlegrar rannsóknar um reynsluheim kvenna í íslenskum fangelsum hafi slegið hann.
„Langflestar kvennanna áttu það sameiginlegt að búa yfir áfallasögu. Þær höfðu leitað sér aðstoðar vegna vímuefnavanda, höfðu misst frá sér börn, verið beittar ofbeldi, glímt við heilsufarsvanda og svo mætti áfram telja. Konur með slíka reynslu að baki fara ekki svo auðveldlega út í samfélagið á ný, með einungis kvíða og vonleysi í farteskinu,“ sagði ráðherra.
Guðmundur Ingi undirstrikaði að það að fóta sig að nýju úti í samfélaginu að lokinni afplánun væri mörgum mikil áskorun og að augljós þörf væri fyrir úrræði þar sem konum í slíkri stöðu væri mætt af virðingu og kærleik og þar sem þær fengju stuðning til að undirbúa sig fyrir þær áskoranir sem þær myndu mæta.
Stofnun Batahússins byggir á skýrslu sem starfshópur á vegum félagsmálaráðherra skilaði árið 2019. Þar var talin þörf á frekari úrræðum fyrir fanga eftir afplánun þar sem fá mætti húsaskjól gegn vægu verði og aðstoð til að vinna gegn fíknivanda og endurteknum afbrotum.
Í janúar 2021 var Batahús fyrir karla opnað en nýja Batahúsið er sem fyrr segir fyrir konur.