Enn sem áður á hamborgarhryggurinn hug og hjörtu landsmanna á aðfangadag en þeim sem hyggjast borða grænmetisfæði fjölgar jafnt og þétt. Vinsældir hamborgarhryggsins hafa þó hægt og rólega dregist saman frá því að mælingar MMR á matarvenjum landans hófust fyrir áratug síðan.
Rétt tæplega helmingur svarenda kvaðst ætla að gæða sér á hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld (46%) en lambakjöt (9%), rjúpur (9%) og kalkúnn (8%) fylgdu sem áður eftir í næstu þremur sætunum. Neysla nautakjöts hefur aukist yfir síðasta áratuginn og hyggjast nú 6% landsmanna gæða sér á nauti á aðfangadag, fjórum prósentustigum meira en árið 2010. Þá voru 4% sem sögðust ætla að að gæða sér á grænmetisfæði á aðfangadag og 17% sögðu annað en ofantalið verða á sínum matardisk á aðfangadag.
1912 AðfangadagurSpurt var: Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á aðfangadagskvöld?
Svarmöguleikar voru: Fiskur/sjávarfang, gæs, grænmetisfæði, hangikjöt, hamborgarhryggur, hreindýrakjöt, kalkúnn, kjúklingur,
lambakjöt (annað en hangikjöt)*, nautakjöt, rjúpur, svínakjöt (annað en hamborgarhryggur)**, önd, annað kjöt, annað og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 96,5% afstöðu til spurningarinnar.

Munur eftir lýðfræðihópum

Svarendur á aldrinum 18-29 ára reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ætla að gæða sér á nautakjöti (7%) eða grænmetisfæði (9%) á aðfangadag en ólíklegust til að segja lambakjöt annað en hangikjöt verða á boðstólnum (5%). Landsmenn 68 ára og eldri reyndust líklegust til að segja kalkún (13%) verða fyrir valinu þetta árið og þau á aldrinum 50-67 ára voru líklegri en aðrir til að segjast munu borða rjúpu sem aðalrétt á aðfangadag (12%).
Svarendur af landsbyggðinni reyndust öllu líklegri til að segjast munu borða hamborgarhrygg (54%) eða rjúpu (12%) á aðfangadag heldur en þau á höfuðborgarsvæðinu (42% hamborgarhrygg; 8% rjúpu). Íbúar höfuðborgarsvæðisins reyndust hins vegar líklegri til að segjast ætla að borða kalkún (10%), nautakjöt (9%) eða grænmetisfæði en þau af landsbyggðinni (6% kalkún; 3% nautakjöt; 2% grænmetisfæði).
Þá reyndust konur (6%) líklegri en karlar (3%) til að segjast ætla að borða grænmetisfæði á aðfangadagskvöld en karlar (7%) reyndust líklegri til að segjast ætla að gæða sér á nautakjöti en konur (4%).
1912 Aðfangadagur x
Stuðningsfólk Miðflokksins (58%) reyndist líklegra en stuðningfólk annarra flokka til að segjast ætla að borða hamborgarhrygg á aðfangadag en stuðningsfólk Vinstri grænna (31%) ólíklegast. Lambakjöt annað en hangikjöt reyndist vinsælast á meðal stuðningsfólks Framsóknarflokksins (22%) en óvinsælast á meðal stuðningsfólks Viðreisnar (3%). Rjúpan nýtur mestrar vinsældar á meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins en 14% þeirra kváðust ætla að gæða sér á henni á aðfangadagskvöld. Annars konar fuglakjöt verður á diskum stuðningsfólks Vinstri grænna þennan aðfangadag en þau reyndust líklegust allra til að segjast munu borða kalkún (18%) en ólíklegust til að borða rjúpu (3%). Stuðningsfólk Pírata (13%) reyndist líklegast allra til að segjast ætla að gæða sér á nautakjöti á aðfangadag en stuðningsfólk Miðflokksins (1%) ólíklegast. Þá reyndist stuðningsfólk Pírata (11%) einnig, ásamt stuðningsfólki Samfylkingarinnar (12%), líklegast til að segjast munu borða grænmetisfæði á aðfangadag en stuðningsfólk Miðflokksins (1%) og Framsóknarflokksins (0%) ólíklegast.
 
1912 Aðfangadagur x2
https://www.facebook.com/Frettatiminn/photos/pb.119771888076968.-2207520000../2544170748970391/?type=3&theater
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.014 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13.-19. desember 2019
Eldri kannanir sama efnis:
2018 desember: Hamborgarhryggshefðin sterk á aðfangadag
2017 desember: Margir gæða sér á hamborgarhrygg
2016 desember: Hamborgarhryggur vinsæll á aðfangadag
2015 desember: Matarhefðir ríkjandi á aðfangadag meðal Íslendinga
2014 desember: Helmingur Íslendinga borðar hamborgarhrygg á aðfangadag
2013 desember: Flestir borða hamborgarhrygg á aðfangadag
2012 desember: Meirihluti ætlar að snæða hamborgarhrygg á aðfangadag
2011 desember: Hamborgarhryggur vinsælastur á aðfangadag
2010 desember: Íslendingar halda fast í hefðir í jólamat á jólum