-3.2 C
Reykjavik
Miðvikudagur - 8. febrúar 2023
Auglýsing

 

 

Kennsl borin á höfuðkúpu með DNA rannsókn

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Þann 3. október 1994 fannst hluti af höfuðkúpu manns á sandeyrum Ölfusáróss, norðan s.k. Nauteyratanga. Á kúpuna vantaði neðri kjálkann og einungis ein tönn var í efri góm.     Farið var með kúpuna til rannsóknar hjá Kennslanefnd ríkislögreglustjóra og á hennar vegum gerðar þær skoðanir og mælingar sem unnt var m.v. tækni þess tíma.   Ekki tókst að bera kennsl á það hverjum umrædd höfðukúpa tilheyrði og var hún því sett í geymslu.
Í lok mars á síðasta ári var ákveðið að reyna á ný og var tekið sýni úr kúpunni til aldursgreiningar.   Niðurstaða þeirrar rannsóknar barst í haust og í ljós kom að beinin voru að líkindum frá árunum um og eftir 1970.   Þá var þess freistað að ná nothæfu DNA sýni úr kúpunni og var það sent rannsóknarstofu í Svíþjóð til greiningar.   Niðurstaða úr þeirri greiningu barst svo nú í janúar og þá kom í ljós að um var að ræða höfuðkúpu Jóns Ólafssonar sem fæddur var 8. júlí 1940 og er talinn hafa fallið í Sogið á aðfangadag 1987. Börnum Jóns hefur verið kynnt þessi niðurstaða og munu þau fá þessar jarðnesku leyfar föður síns á allra næstu dögum.
Lögreglan á Suðurlandi hefur undanfarin ár tekið DNA sýni úr aðstandendum þeirra sem taldir eru hafa horfið í umdæminu á liðnum árum og hafa ekki fundist.   Enn er eftir að fá sýni frá nokkrum einstaklingum og verður þeirri vinnu haldið áfram á þessu ári.   Lögreglumönnum við þessa vinnu hefur verið afar vel tekið af þeim sem leitað hefur verið til. Sýnin sem tekin eru eru vörsluð í gagnabanka þar sem unnt verður að bera þau saman við DNA snið þeirra sem finnast, hvort sem það er í okkar tíð eða komandi kynslóða.
Á Facebooksíðunni Íslensk mannshvörf er hvarf Jóns rifjað upp en þar kemur fram að hann hafi verið í jólagjafaleiðangri á Suðurlandi þegar hann hvarf.
,, JÓN ÓLAFSSON – 24. DESEMBER 1987
Jón Ólafsson skipstjóri var fæddur 8. júlí 1940. Hann var búsettur á Egilsbraut 26 í Þorlákshöfn. Hann var vinsæll meðal vina og skipsfélaga. Ekki margorður en ævinlega glaðlindur. Hann var fráskilinn og átti tvö börn.
24. desember 1987 fór hann til Hveragerðis með son sinn og skildi hann eftir hjá móður hans og systur. Hann ætlaði að fara á einn stað með jólapakka, koma svo aftur við en fara svo til Reykjavíkur og dvelja þar um kvöldið.
Um kl 19:00 um kvöldið hafði hann ekki skilað sér úr áður nefndum jólagjafaleiðangri og var þá farið að grenslast fyrir um hann. Kom þá í ljós að hann hafði aldrei komið á staðinn sem hann hafði ætlað á og hófst þá umfangsmikil leit. Á jóladag fannst svo bifreið hans við brúnna yfir Sogið. Leit við sogið hélt áfram í nokkra daga en skilaði engum árangri.
Jón var úrskurðaður látin hálfu ári seinna og var þá haldin um hann minningarathöfn. Fjölskylda Jóns telur ekki að neitt sérlega dularfullt sé við hvarf hans, heldur sé þetta sorlegur atburður.
Búir þú yfir upplýsingum eða vilt koma á framfæri ábendingu varðandi ofangreint, eða önnur mannshvörf er þér bent á að hafa samband með tölvupósti. Póstfangið er [email protected] – Fullum trúnaði er heitið.“
https://www.facebook.com/mannshvorf/posts/453345181686951:0