Verð lækkaði í Fjarðarkaupum
Verð á mjólkurvörum hækkaði í mörgum verslunum milli fyrstu og annarrar viku ársins. Verð hækkaði oftast í Bónus, eða á 90% af vörunum sem þar voru skoðaðar. Mest hækkuðu verð í Iceland, um rúmlega 4%. Verðið stóð í stað í Extra og Heimkaupum en lækkaði í Fjarðarkaupum. Þar munar mestu um 15-20% afslætti sem gefnir voru á vissum vörum á könnunardegi, sem var 12. janúar. Fyrri athugunin var framkvæmd 3.-4. janúar.
Í Nettó, Krónunni, Kjörbúðinni, Hagkaupum, Bónus og Krambúðinni hækkaði verð á flokkunum ostar og smjör, skyr og jógúrt, mjólk og jurtamjólk, og rjómi, um 1-4%.
Mest hækkaði flokkurinn mjólk og jurtamjólk í Iceland, um 5,6%. Mestu munaði um 330ml D-vítamínbætta nýmjólk og léttmjólk, sem hækkaði um 19%. Flokkurinn rjómi hækkaði í öllum tilfellum um minna en 2%, stóð í stað í Extra og Heimkaupum og lækkaði í Fjarðarkaupum.
Ein verslun var könnuð 11. í stað 12. janúar, en það var Kjörbúðin.
Vert er að nefna að þann 8. janúar tók gildi ákvörðun verðlagsnefndar búvara um að hækka heildsöluverð á mjólk um 1,6%. Lágmarksverð mjólkur til bænda hækkaði um áramótin um 2,25%.
Karamelluskyr efst á blaði
Verðbreytingarnar eru áfall fyrir karamelluskyrsunnendur. Lítið KEA saltkaramelluskyr, 200gr, hækkaði mest allra vara – um 32% í Iceland og Krambúðinni og 27% í Kjörbúðinni. Engjaþykkni með karamellubragði hækkaði um 31% í Krambúðinni, 28% í Iceland og 23% í Kjörbúðinni. Ísey skyr með creme brulee hækkaði um 29% í Iceland og 28% í Kjörbúðinni.
Karamelluskyrið er þó enn á sama verði og áður í Heimkaupum, Fjarðarkaupum og Extra.
Flestar verðlækkanir milli vikna voru í Fjarðarkaupum, fyrst og fremst vegna fyrrnefndra afslátta. Lækkanirnar náðu til 17% af þeim 223 vörum sem skoðaðar voru þar. Nettó lækkaði verð á engum vörum og sem fyrr segir stóðu verð í stað í Extra og Heimkaupum.
Verðhækkanir voru tíðastar í Bónus; 90% af vörunum sem skoðaðar voru þar hækkuðu í verði. Þær hækkuðu að meðaltali um 1,6%, en mest hækkaði Dala Camembert, um rúmlega 7%.
Um könnunina
Könnunin var framkvæmd 11.-12. janúar 2024, í verslunum og vefverslunum. Úrvalið sem hér er til skoðunar endurspeglar ekki verðbreytingar í allri versluninni. Aðeins er kannað vöruverð og ekki lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.