Meginmarkmið stjórnvalda hvað varðar starfsemi á háskólastigi er að framsæknar og alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknarstofnanir og háskólar skapi þekkingu, miðli henni og undirbúi nemendur til virkrar þátttöku í nútímaþekkingarsamfélagi og til verðmætasköpunar sem byggist á hugviti, nýsköpun og rannsóknum. Að því markmiði er meðal annars unnið að með því að auka gæði náms og námsumhverfis í íslenskum háskólum, styrkja rannsóknarstarf og umgjörð þess og auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknarstofnana í samfélaginu.
„Á Íslandi eru starfræktir öflugir háskólar sem við getum verið stolt af. Við höldum áfram að auka framlög á því sviði líkt og boðað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Öflugir háskólar byggja undir frekari verðmætasköpun í samfélaginu og auka samkeppnishæfni hagkerfisins á alþjóðavísu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.