Þingmaður sem greinst hefur með Covid-19 smit, tilkynnti um smitið í gærkvöld og hrósar heilsugæslunni fyrir vel unnin störf
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, greindist um helgina með COVID-19 veirusýkingu. Smári greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni:
Jæja. Það kom að því.
Fyrir rúmri viku fór ég í sjálfskipaða sóttkví eftir að ég fór að fá hósta. Það kom á daginn í gær eftir prufu á föstudaginn að ég er búinn að vera með Covid-19 smit. Ég er þokkalega hress, einkennin mjög væg, hóstinn mestmegnis farinn og hitinn varð aldrei mikill. Önnur einkenni koma og fara ─ en ég er í stuttu máli ótrúlega heppinn með hvað þetta virðist vægt. Nú er ég kominn í tveggja vikna einangrun, en ég mun reyna að sinna þingstörfum eftir því sem ég get í gegnum fjarfundi og símtöl á meðan.
Ég veit ekki hvar ég smitaðist eða hvernig, það verður líklega aldrei vitað. Smitrakningarteymið sendi á mig skjal og gaf mér viðmiðunardagsetningu eftir samtal, og það ætti að vera búið að hafa samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví eftir að hafa umgengist mig. Hvað Alþingi varðar hafa aðgerðirnar þar til að halda fólki í hæfilegri fjarlægð hver frá öðrum verið til þess að mitt smit ætti ekki að hafa teljandi áhrif á störfin þar. Ekki það, það munu eflaust vera fleiri eftir því sem á líður.
Vil gjarnan kasta hrósi á heilsugæsluna í Miðbæ, smitrakningarteymi almannavarna og læknirinn sem hringdi í mig frá LSH til að tilkynna mér um niðurstöðuna. Þau öll, ásamt öllum öðrum í heilbrigðiskerfinu, eru að vinna þrekvirki þessa daganna.
Við erum öll í þessu saman. Nú reynir á að við fylgjum reglunum, reynum að minnka smit eins mikið og hægt er, og reynum að komast í gegnum þetta. Stöndum saman og komum út sterkari. Pís!
https://www.facebook.com/smarimc/posts/10159678709359251