Hefðbundnir innbrotsþjófar læðast inn til fólks í skjóli nætur. Ósýnileikinn er þeirra vopn og svo koma þeir þýfinu í verð gjarnan í gengum milliliði sem fela sig fyrir dagsljósinu. En nú er komin á stjá ný tegund þjófa.
Þessir þjófar eru helst á ferð á daginn en teygja sig stundum inn í nóttina. Þessa nýju þjófa má nefna bílastæðaþjófa því þeir keppast við að ræna af bíleigendum er oft á tíðum vita ekki af því að þeir eru rændir þegar bílnum er lagt í bílastæði.
Áður en þessir bílastæðaþjófar fóru á sjá voru bílastæðagjöld innheimt helst af Reykjavíkurborg bæði ef lagt var í miðbænum þar sem þurfti að hafa stjórn á því takmarkaða bílaplássi er var til reiðu og einnig í þar til gerðum bílastæðahúsum. Hinn almenni maður vissi af hverju var gengið þegar hann lagði á hinum vel merktu stæðum. Vaksir og misvelliðnir stöumælaverðir fylgdust með að menn greiddu fyrir dvölina.
Borgin takmarkaði þann tíma er var gjaldskyldur. Eftir að bílastæðaþjófarnir fóru á stjá gerbreyttist þetta landslag. Nú var komið upp víða um bæinn nánast ósýnilegum njósaaugum er nema bílnúmerin og svo fylgir reikningur. Hinn almenni borgari hefur oft á tíðum ekki hugmynd um þessi njósnaugum og ef reikningurinn er ekki greiddur fer hann til innheimtufyrirtækja er þjóna þarna svipuðu hlutverki og hinir ljósfælnu milliliðir er aðstoða innbrotsþjófana.
Og þessi nýja tegund þjófa hefur fleiri samverkamenn svo sem stjórnmálamenn er veita leyfin fyrir njósnaaugunum. Þá er freistandi fyrir fyrirtæki að deila þýfinu með því að heimila njósnaugun.
Þessir ósýnilegu þjófar fara hratt yfir og gæti svo farið að erfitt verði til dæmis fyrir suma er hafa lítið á milli handanna að fara í sund eða á ýmsar opinberar samkomur ef reikningur hoppar inná heimabankann í hvert sinn frá bílastæðaþjófunum. Og hvað um ferðamennina? Einn ágætur túristi greiddi 20.000 krónur
fyrir næturgistingu á ónefndu hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Þessi ágæti túristi rak upp stór augu þegar reikningurinn ríflega tvöfaldaðist.
Vandræðalegur hótelstarfsmaður skýrði út fyrir gesti að hann hefði lagt á bílastæðið og þetta væri bílastæðagjaldið fyrir sólarhringinn. Bílastæðaþjófarnir hafa
væntanlega brosað í kampinn?
Hinn almenni borgari er fullkomlega varnarlaus gagnvart slíku ránsgjaldi. Ekki dugar að leita til lögreglunnar því þetta var jú allt samþykkt og stimplað að þar til bærum yfirvöldum. Hvernig bregðast þau við þessari nýju tegund af fjárplógsstarfsemi?
Guðmundur Jónsson