Hvorki meira né minna en 88,3% svarenda eru fylgjandi tillögu Vegagerðar ríkisins um lagningu nýs vegar í Gufudalssveit, svonefnda Þ-H leið, sem á að liggja að hluta til um Teigsskóg í Þorskafirði, en 6,4% eru andvígir (5,2% svara hvorki né).
Þetta er megin niðurstöður könnunar sem Gallup gerði dagana 7. – 21. maí 2018 á Vestfjörðum.
Um var að ræða síma- og netkönnun. Úrtak könnunarinnar var 1106 manns úr póstnúmerum 380-512, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup og Þjóðskrá. Svarendur voru 550 og 556 svöruðu ekki. Þátttökuhlutfallið er 49,7%. Markmið könnunarinnar var að kanna skoðun almennings á Vestfjörðum þegar kemur að lagningu nýs vegar í Gufudalssveit. Guðmundur Halldórsson, skipstjóri í Bolungavík bað um verkið og kostar það.
Lögð var fyrir þátttakendur ein spurning svohljóðandi: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) tillögu Vegagerðar ríkisins um lagningu nýs vegar í Gufudalssveit, svonefnda Þ-H leið, sem á að liggja að hluta til um Teigsskóg í Þorskafirði?
Það þeim 550 sem svöruðu tóku 524 eða 95,4% afstöðu og 26 tóku ekki afstöðu. Fylgjandi voru 463 eða 88,3%. Vikmörk eru 2,7%. Það þýðir að 95% líkur eru á því að fjöldi þeirra sem eru fylgjandi veg um Teigsskóg eru frá 92,7% til 98,1%. Það er óvenjulega hátt hlutfall yfirhöfuð í nokkru máli. Andvígir reyndust 34 eða 6,4%. Vikmörkin hjá andvígum eru 2,1%.
Stuðningur er heldur meiri meðal karla eða 82% en kvenna þar sem hann var 75%. Stuðningurinn er yfirgnæfandi í öllum aldurshópum. Minnstur var hann í yngsta aldurshópnum 18 – 24 ára. Þar var stuðningurinn 58%. Í næsta aldurhópi frá 25- 34 ára er stuðningurinn 75%. mestur er stuðningurinn hjá þeim sem eru eldri en 65 ára eða 90%.
Stuðningurinn mældist 82% hjá íbúum á sunnarverðum Vestfjörðum og 78% annars staðar á Vestfjörðum.
Guðmundur kvaðst vera mjög ánægður með niðurstöður könnunarinnar og sagði að hún staðfesti að Vestfirðingar stæðu sameinaðir í þessu mikla hagsmunamáli og að það styrkti stöðu þeirra gagnvart ríkisvaldinu og þeim sem standa á móti framkvæmdunum. Það er ekki eftir neinu að bíða sagði Guðmundur Halldórsson.
Discussion about this post