Flokkur fólksins hefur gefist upp gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans, þetta kom fram í viðtali við Ingu Sæland í morgun í þættinum Ísland í bítið á Bylgjunni. Þar sagði hún að orustan væri töpuð gegn þeim sex flokkum á þingi sem að styðja innleiðingu þriðja orkupakkans.
Inga sagði að hún skildi vel að Miðflokkurinn væri að nota það eina vopn sem að tiltækt er, þ.e. að halda uppi öflugri málsvörn á Alþingi. Sex af átta flokkum á þinginu eru taldir munu greiða atkvæði með tillögunni um þriðja orkupakkann.
Þingfundi á Alþingi var frestað klukkan sex í morgun en þá höfðu þingmenn Miðflokksins rætt um þriðja orkupakkann frá því klukkan þrjú í gærdag og verður umræðu um þriðja orkupakkann haldið áfram í dag. Ekkert annað mál hefur verið rætt á Alþingi en um þriðja orkupakkann, síðan á mánudaginn í síðustu viku. Síðan á þriðjudag hefur umræðan um þriðja orkupakkann staðið í rúmar 60 klukkustundir.
Það eru aðeins Miðflokksmenn sem halda umræðunni áfram enda stendur hann nær einn gegn þriðja orkupakkanum á þinginu.