6.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna Rapyd og Valitors með skilyrðum

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna Rapyd og Valitors með skilyrðum

Dótturfélag Rapyd er Rapyd Europe hf., sem áður hét Korta hf., en félagið stundar greiðsluþjónustustarfsemi meðal annars hér á landi, líkt og Valitor. Með viðskiptunum hyggst Rapyd sameina rekstur Valitors og Rapyd Europe hf.

Samruninn hefur fyrst og fremst áhrif á mörkuðum fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum, þ.e. vegna viðskipta á sölustað á Íslandi (óháð uppgjörsmynt) og vegna netviðskipta með uppgjöri í íslenskum krónum.

Það er niðurstaða rannsóknarinnar að ef hin áformuðu kaup Rapyd á Valitor hefðu gengið fram óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75% fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum.

Samruninn hefði því leitt til afgerandi markaðsráðandi stöðu sameinaðs félags eða eftir atvikum styrkingar á mögulegri markaðsráðandi stöðu Valitors. Telur Samkeppniseftirlitið að samrunaaðilar séu nánir keppinautar á markaði og að talsverðar aðgangshindranir séu til staðar. Að mati Samkeppniseftirlitsins hefði samruninn verið til þess fallinn að hindra virka samkeppni í skilningi samkeppnislaga.

Við rekstur málsins brugðust samrunaaðilar við frummati Samkeppniseftirlitsins með því að óska eftir viðræðum um sátt í málinu og leggja til aðgerðir til þess að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni. Leiddu viðræðurnar til þess að Rapyd gerði sátt við Samkeppniseftirlitið um tilteknar aðgerðir.

Í aðgerðunum felst meðal annars að Rapyd skuldbindur sig til þess að selja frá sér fjölbreytt safn færsluhirðingarsamninga til hæfs kaupanda sem samsvarar hærri markaðshlutdeild á meginmarkaði málsins en markaðshlutdeild Rapyd Europe hf. Með sölunni fer markaðshlutdeild hins sameinaða fyrirtækis jafnframt marktækt niður fyrir 50%.

Á meðan á meðferð málsins stóð hófu samrunaaðilar söluferli sem miðaði að þessu og gerðu að lokum samning við Kviku banka hf. („Kvika“) um kaup á fjölbreyttu safni færsluhirðingarsamninga.

Í þessu felst að Rapyd hefur skuldbundið sig til að koma í veg fyrir þá samþjöppun sem af samrunanum hefði leitt. Skapar salan jafnframt aðstæður fyrir nýjan aðila, Kviku, sem þegar veitir greiðslutengda þjónustu undir vörumerkjum Netgíró og Aur, til að hasla sér völl á færsluhirðingarmarkaði og keppa um viðskipti við söluaðila.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:

„Virk samkeppni á greiðslukorta- og greiðsluþjónustumörkuðum skiptir miklu máli og hefur áhrif á verð vöru og þjónustu til neytenda á Íslandi. Það er því þýðingarmikið að allir sem að þessu máli koma tryggi að þau skilyrði sem sett eru fyrir kaupum Rapyd á Valitor gangi fram samkvæmt efni sínu. Með því yrði skapaður jarðvegur fyrir jákvæðar breytingar á þessu sviði, neytendum til hagsbóta.“