Hún er nokkuð þekkt, forsíðan sem Forbes-tímaritið birti undir lok árs 2007, með mynd af manni sem talaði í Nokia-farsíma og þeirri spurningu velt upp hvort nokkur gæti velt „konungi farsímanna“ úr sessi.
Þessi forsíða er oft dregin upp enda vitum við sem er að þetta sama ár kynnti Apple til leiks nýjan síma, iPhone, sem innan fárra ára átti eftir að velta Nokia úr sessi. Á þeim rúma hálfum öðrum áratug sem er liðinn síðan þá hafa Apple, Samsung og aðrir framleiðendur kynnt til leiks stórbrotna síma en Nokia setið eftir.
Það hafa verið skrifaðar margar lærðar greinar um það hvernig Nokia varð undir og fyrir því eru fjölmargar ástæður. Ein af þeim sem vega þar þungt er viðhorf stjórnenda félagsins til framþróunar og væntinga neytenda. Með einföldum hætti má segja að stjórnendur Nokia töldu sig vita betur en almenningur hvaða síma ætti að nota og hvernig.
Þessi stutta og einfalda upprifjun minnir að vissu leyti á stöðu Reykjavíkurborgar, sem var einu sinni vel rekin og öflug borg, sem veitti góða þjónustu og eftirsótt var að búa í. Fröken Reykjavík var áður drottning en er núna blönk og hefur ekki burði til að þjónusta íbúa sína með fullnægjandi hætti.
Í grein sem ég skrifaði í febrúar 2021 sagði ég að ef Reykjavíkurborg væri heimilisbókhald væri rekstur heimilisins í járnum og yfirdrátturinn fullnýttur þrátt fyrir að heimilismenn hefðu fengið launahækkanir síðustu ár. Greinin vakti litla kátínu meðal meirihlutans sem svaraði með hefðbundnum hætti; skætingi og útúrsnúningum. Síðan þá hefur fjárhagsstaðan bara versnað og yfirdrátturinn er kominn í hámark. Ólíkt heimilisbókhaldinu hleypur þessi yfirdráttur þó á milljörðum.
Fjárhagsvandræði Reykjavíkur urðu þó ekki til af sjálfu sér. Þau koma til þar sem vinstri meirihluti borgarstjórnar hefur lagt meiri áherslu á sín eigin hugðarefni frekar en þjónustu við íbúa. Það er búið að halda óteljandi íbúaþing og íbúakosningar þar sem fólki er gefinn kostur á að velja úr eðlilegum viðhalds- og uppbyggingarverkefnum, en á sama tíma hafa borgarbúar enga valkosti um dagvistun, skóla, samgöngumáta eða aðra þjónustu.
Þegar foreldrar barna í mygluðum skóla láta í sér heyra yppa borgarfulltrúar öxlum og þegar fólk lokast inni vegna snjókomu er bent á að þjónustuhandbók um vetrarþjónustu sé í endurskoðun. Þá er ótalinn leikskólavandinn, skortur á viðhaldi og umhirðu, sístækkandi yfirstjórn og önnur atriði sem ýmist skýrast af bágri fjárhagsstöðu eða skorti á vilja borgaryfirvalda til að þjónusta íbúa.
Rétt eins og stjórnendur Nokia þurftu á endanum að viðurkenna að þeir gátu ekki sagt fólki hvernig síma það átti að nota, þurfa stjórnendur Reykjavíkur að viðurkenna að borgin er til fyrir fólkið en ekki öfugt.