6.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

,,Hvað er að þessu fólki?! – Ekkert annað en „einbeittur brotavilji“

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

ÉG VILDI AÐ ÉG GÆTI GERT MEIRA

Ég í alvörunni grét þegar ég sá þessar fregnir. Ég er uppfull af e.k. blöndu af sorg og reiði og magnvana hjálparleysi, gagnvart því sem svo mörg ykkar eruð að fara að ganga í gegnum.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna skrifar

Það hefur verið markmið mitt frá því skömmu eftir hrun að koma í veg fyrir að heimilunum yrði aftur fórnað á altari fjármálafyritækja og að nokkur þyrfti að ganga í gegnum þá skelfingu sem ég og þúsundir annarra fundum okkur í á árunum eftir hrun. Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist eins og ljón, nokkrir verklýðsforingjar með Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálm Birgisson fremsta í flokki hafa barist eins og ljón, og ég bauð mig fram inn á þing til þess að málstaður heimilanna ætti rödd þar.

En öflin sem við berjumst gegn eru sterkari en hægt er að ímynda sér. Þau ráða og nú er aftur, án þess að það sé einu sinni verið að reyna að fela það, verið að fórna þúsundum heimila, á altari fjármagnsaflanna.
Jú þetta er gert undir því fororði að verið sé að berjast við verbólguna en við því hef ég nokkrar athugasemdir og/eða spurningar:
  • Fyrir hvern er verið að berjast við verðbólguna ef ekki fólkið í landinu?
  • Hvernig er hægt að réttlæta að „berjast við verðbólguna“ með því að auka svo á erfiðleika og byrðar heimilanna að þau munu fjölmörg kikna undan þeim?
  • Í úttekt RÚV/ASÍ í gær var talað um 80.000 króna útgjaldaaukningu fjögurra manna fjölskyldu. Af því voru 60.000 vegna hækkunar á greiðslubyrði lána (fyrir hækkun dagsins). HVERJUM HJÁLPAR ÞAÐ?
  • Hvernig er réttlætanlegt að berjast við verðbólgu sem veldur 20.000 króna útgjaldauka með því að bæta 60.000 ofan á það?
  • HÚSNÆÐI ER EKKI NEYSLUVARA!! Það væri hægt að minnka verðbólguna um heil 3 prósentustig með því að taka húsnæðisliðinn út vísitölunni? AF HVERJU ER ÞAÐ EKKI GERT??!!
Í frétt RÚV var talað við einhvern „sérfræðing“ frá Íslandsbanka, sem sagði m.a. að það væru ætlunin hjá Seðlabankanum að láta heimilin finna fyrir þessu …

„…með því að hækka þessa vexti þá á að gera það dýrara og erfiðara að borga þessi háu verð fyrir fasteignir, að kæla soldið hagkerfið á sama tíma og hvetja síður til lántöku og gera peninga dýrari“.

Þetta er alveg rétt að þetta er tilgangur Seðlabankans.
Gallinn er bara sá að fólkið sem þetta bitnar á er ekki að kaupa eða „borga þessi háu verð fyrir fasteignir“. ÞAÐ ER ÞEGAR BÚIÐ AÐ KAUPA FASTEGNIR!!
Til að ná þessum tilgangi væri hægt að setja þessi háu vexti á ný lán, en það að þeir séu settir á öll lán, hefur ekkert með þetta markmið að gera, en hins vegar færir fjármuni heimilanna í bílförmum beint í yfirfullar fjárhirslur bankanna, sem munu væntanlega sýna methagnað á þessu ári ofan á þann methagnað sem fyrir var.
Heimilin munu hins vegar blæða.
Seðlabankastjóri er samt ekki á því. Förum yfir það sem hann segir í meðfylgjandi frétt:

„Heim­il­in í land­inu hafa burði til að tak­ast á við þær vaxta­hækk­an­ir sem hafa verið und­an­farið, sem og verðbólg­una.“

Er það virkilega svo? Ertu viss um að það eigi við um öll heimili? Hvað með þau sem geta það ekki? Svo ég tali fyrir sjálfa mig, þá mun ég ráða við þetta og væntanlega eitthvað í viðbót, komin á þingmannalaun, en ég er ekki viss um að svo væri ef ég væri enn á kennaralaunum. Hvað þá ef ég væri með lægri tekjur en það. Hvurslags fullyrðing er þetta þegar það er 100% ljóst að fjölmörg heimili munu ALLS EKKI ráða við þetta?!

„Hann sagði heim­il­in enn vera í plús. Þau hafi aldrei verið bet­ur fjár­mögnuð og aldrei verið með meira eigið fé.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri

Er Seðlabankastjóri núna komið í sama bull og fjármálaráðherra að fjasa um „eiginfjárstöðu heimilanna“ þegar hún hefur NÁKVÆMLEGA EKKERT að gera með AFKOMU ÞEIRRA?!

Þessi glæsilega eiginfjárstaða sem þeir vitna í, er EKKI VEGNA ÞESS AÐ SKULDIR HEIMILANNA HAFI LÆKKAÐ, heldur vegna þess að FASTEIGNAMAT HEFUR HÆKKAÐ.
Upp skrúfað pappírsvirði eigna hefur vissulega hækkað, en það er ekki eins og nokkur græði á því.
  • Þetta eru ekki peningar í vasann fyrr en þú selur. Þú kaupir ekki mat eða aðrar nauðsynjar og borgar ekki af lánum með hærra fasteignamati (merkilegt að þurfa að útskýra þetta fyrir þeim sem stjórna fjármálum á Íslandi)
  • Ef þú selur eignina þarftu að kaupa aðra eign og borga þá um leið hlutfallslega mikið hærra verð fyrir hana, sem aftur getur þýtt hærri lántökur (nema náttúrulega þú sért fjárfestir en það er önnur og lengri umræða)
  • Þú geldur illilega fyrir ástandið á fasteignamarkaði með hærri fasteignagjöldum sem munu á næsta ári leggjast ofan á aðrar hækkanir sem heimilin eiga að standa umdir.

„Hann [Ásgeir] nefndi að verðbólg­an hafi ekki lent af full­um þunga á þeim sem tóku nafn­vaxtalán.“

Vá, eins gott að bæta úr því. Það er hægt að kreista þau meira.

„Verðbólgu­skell­ur­inn hef­ur komið miklu minna fram hjá þeim heim­il­um sem hafa verið með nafn­vexti en þeim sem hafa verið með verðtryggð lán.“

Loksins er komin viðurkenning frá Seðlabankastjóra á skaðsemi verðtryggðra lána, en samkvæmt RÚV fréttinni hefur höfuðstóll 40 milljón króna verðtryggðs láns hækkað um 3 milljónir á einu ári.
Fyrir þá sem vilja vita meira um skaðsemi verðtryggðra lána má vísa í ræðu sem ég hélt á Alþingi í síðustu viku og er hér rétt fyrir neðan á FB síðu HH (Heimilin Þurfa vernd NÚNA! Áskorun!)

„Þetta er í fyrsta skipti í ára­tugi að heim­il­in fá ekki verðbólg­una beint í fangið,“ sagði Ásgeir, sem tók þó fram að verðbólg­an kæmi fólki mjög illa og æti upp kaup­mátt­inn.“

Hvers konar þversögn er þetta? „…fá ekki verðbólguna beint í fangið“ en kemur „…fólki mjög illa“(!)
Er 60.000 króna aukning á útgjöldum, bara vegna vaxtahækkana, ekki hreinlega skilgreiningin á því að „fá verðbólguna beint í fangið“, eins og dæmið hjá RÚV sýndi fram á?

„Hann sagði Seðlabank­ann hafa þær skyld­ur við heim­il­in að halda verðbólg­unni niðri og það ætli bank­inn sér að gera.“

Er Seðlabankinn sem sagt að „rækja skyldur sínar við heimilin“ með því auka byrði þeirra úr 20.000 krónum á mánuði í 80.000??!!! Og það var staðan FYRIR ÞESSA HÆKKUN Í MORGUN!!
Má ég vinsamlegast biðja Seðlabankann að hætta að „rækja skyldur sínar við heimilin“

Hann sagði mik­il læti hafa verið á fast­eigna­markaði … Þær komi einnig inn á fast­eigna­markaðinn. „Þá fáum við þessa verðbólgu til­tölu­lega skarpt inn,“ sagði hann og benti á að fast­eigna­markaður­inn legði mjög mikið til verðbólg­unn­ar.

TAKIÐ HÚSNÆÐISLIÐINN ÚR VÍSITÖLUNNI!!!
Flokkur fólksins hefur margoft lagt fram frumvarp vegna þess, síðast núna í desember, sem ég mælti fyrir þann 8. mars sl.

„Um leið og fast­eigna­verð hætti að hækka, sé grund­völl­ur fyr­ir „til­tölu­lega hraðri verðbólgu­hjöðnun“.

Hvað verður búið að fórna mörgum heimilum þegar þar að kemur?

„Rann­veig Sig­urðardótt­ir, vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu, bætti við að staða heim­il­anna væri mjög góð. „Kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna og kaup­mátt­ur launa hafa verið að aukast. Það er mjög ánægju­legt og mjög gott.“

Í hvaða fílabeinsturni lifir þetta fólk. Kaupmáttur öryrkja og aldraðra hefur ekki aukist. Stór hluti þjóðarinnar hefur bara alls ekki upplifað „aukin kaupmátt“, og þó svo væri, þarf þá endilega að rífa hann af þeim og afhenta bönkunum?

„Bætti hann [Ásgeir] við að Seðlabank­inn búi, með vaxta­ákvörðun sinni, í hag­inn fyr­ir næstu kjara­samn­inga. Bank­inn geti sýnt fram á það að hann ætli að ná niður verðbólgu „með hörðum aðgerðum til að aðilar vinnu­markaðar­ins sjái að það þurfi ekki að heimta launa­hækk­an­ir fyr­ir framtíðar­verðbólgu“.

Hefur hann ekkert hlustað á varnaðarorð verkalýðsleiðtoga??!!
Viðbrögð Vilhjálms Birgissonar í morgun voru eftirfarandi á Facebook:

„Ég get ekki séð annað en að það muni stefna í hörð átök á íslenskum vinnumarkaði í haust.

Eitt er allavega alveg ljóst að ekki er hægt að leggja auknar álögur á launafólk, heimili og neytendur sem nemur tugum þúsunda á mánuði, án þess að launafólk bregðist harkalega við.

Bara þessi 1% stýrivaxtahækkun getur aukið vaxtabyrði á 40 milljóna húsnæðisláni á breytilegum vöxtum um 33 þúsund á mánuði!“

————————————————–
Stundum næ ég að skrifa mig frá reiðinni og vonbrigðunum, en þetta ristir dýpra núna.
Í mínum huga er þetta ekkert annað en „einbeittur brotavilji“ gegn heimilum landsins og ég lýsi allri ábyrgð á hendur þeirra sem grípa til svona ráðstafanna og kalla það „varnir fyrir heimilin“.
„Skjaldborg fyrir heimilin“. Hvar höfum við heyrt það áður?
Hugur minn er hjá heimilunum sem nú standa frammi fyrir skelfingu sem engin á að þurfa að standa frammi fyrir, og hún er að mannavöldum.
Orð hafa lítið að segja. Ég vildi að ég gæti gert meira.