Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti stórfellda uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni á fundi hjá HMS í hádeginu. Ráðherra upplýsti að samtals væri stefnt að því að byggja 2.800 íbúðir fyrir þennan hóp á árunum 2023-2025 í stað 1.250 íbúða sem áður var áætlað. Þar af verða 800 byggðar þegar á þessu ári. Þetta er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu en stjórnvöld hafa ákveðið að tvöfalda fjármagn til stofnframlaga til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa. Fjármögnun er tryggð með svigrúmi í fjármálaáætlun og hliðrun annarra verkefna.
Ráðherra sagði einnig frá því að reglugerð um hlutdeildarlán hafi í dag verið breytt til að auðvelda fólki íbúðakaup. Hlutdeildarlán eru í boði fyrir fyrstu kaupendur og fólk sem ekki hefur átt íbúð undanliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Meðal breytinga er að hámarksverð íbúða hefur verið uppfært, verðflokkar sveitarfélaga endurskoðaðir og tekjumörk lántaka uppfærð. Einnig verður þjónusta bætt með því að hlutdeildarlánum verður nú framvegis úthlutað mánaðarlega en ekki annan hvern mánuð.
„Eitt mikilvægasta verkefni okkar er að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það er þjóðhagslega brýnt að gott aðgengi sé að íbúðum á viðráðanlegu verði sem dregur úr ójöfnuði í samfélaginu. Stofnframlög ríkis og sveitarfélaga leggja grunn að lægra leiguverði til neytenda og því er mikilvægt að stórauka fjármagn til hagkvæmra íbúða fyrir þau sem eru tekju- og eignaminni. Stofnframlagakerfið hefur reynst vel en markmiðið er að leigufjárhæð sé í samræmi við greiðslugetu og fari að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
3 milljörðum úthlutað til byggingar á 286 íbúðum
Á fundinum í dag fór fram fyrri úthlutun ársins á stofnframlögum. Úthlutað var til byggingar á 286 nýjum leiguíbúðum fyrir tekju- og eignalága í sextán sveitarfélögum. 70% íbúðanna eru á höfuðborgarsvæðinu en 30% á landsbyggðinni.
Heildarfjárhæð framlaga ríkisins eru rúmlega þrír milljarðar króna (3.050 ma. kr.) Sveitarfélög veita tæplega 1,8 milljarða (1.757 ma. kr.) framlag á móti framlagi ríkisins til íbúðanna.
„Við hjá HMS fögnum auknu fjármagni sem beint er í farveg stofnframlaga og lánsfjármögnunar leiguíbúða, bæði til uppbyggingar innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa á almennum markaði. Þessar aðgerðir munu efla styrk okkar til að bregðast við mikilli þörf á íbúðum fyrir tekju- og eignalága. Það eru spennandi tímar framundan hjá HMS að útfæra þessa uppbyggingu í góðu samstarfi við sveitarfélögin og aðra hagaðila á markaðnum,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS.
Á fundinum fjallaði Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar um uppbyggingaráform sveitarfélaga. Þá kynnti Elmar Erlendsson framkvæmdastjóri lánasviðs hjá HMS stöðu á leigumarkaði og fjallaði m.a. um fjölgun hagkvæmra leiguíbúða um land allt.
Um stofnframlög og hlutdeildarlán
Stofnframlög eru veitt til uppbyggingar á hagkvæmum leiguíbúðum innan almenna íbúðakerfisins til að auka húsnæðisöryggi leigjenda og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt íbúð sl. fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum.