Íslandsbanki fellst á það að hafa brotið innri reglur bankans og farið á svig við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti við einkavæðingu á bankanum.
Íslandsbanki hefur fallist á boð fjármálaeftirlits Seðlabankans um að greiða 1,16 milljarða í sátt vegna brota á reglum við framkvæmd útboðs Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars í fyrra. Í tilkynningu frá bankanum segir að stjórn hans hafi í dag tekið ákvörðun um að þiggja sáttaboðið.
Reglum bankans um veitingu fjárfestingarþjónustu hafi ekki verið fylgt í öllum tilvikum við undirbúning og framkvæmd útboðsins, einkum hvað varðar hljóðritanir símtala, upplýsingagjöf til viðskiptavina, flokkun fjárfesta og ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum s.s. aðskilnað starfssviða og viðskipti starfsmanna,“ segir í tilkynningunni.
Bankinn hafi við framkvæmd útboðsins ekki starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum. Er það niðurstaða fjármálaeftirlitsins að brot bankans samkvæmt framangreindu hafi verið alvarleg. Finnur Árnason, stjórnarformaður bankans segir að mikill lærdómur hafi hlotist þessu ,,verkefni“. Fjallað var einnig ítarlega um málið á vef ríkisútvarpsins.
Umræða