Ráðherrar byrjaðir að tala um Kjararáð
Það er jákvætt, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eru byrjaðir að tala um Kjararáð, ýmist beint eða óbeint. Þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, talaði fyrir skömmu um að kjarasamningar væru ekki gerðir í tómarúmi var hún augljóslega að vísa til umræðna um ákvarðanir Kjararáðs.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði líka fyrir skömmu,að umræðurnar um Kjararáð snerust um það að „einn megi ekki fara fram fyrir annan“.
Í samtali við RÚV í gær gekk Bjarni lengra og sagði:
„Ákvarðanir Kjararáðs voru mjög vel kortlagðar fyrr á þessu ári…Nú ef menn vilja miða við þá niðurstöðu sem birtist í skýslunni snemma á árinu, þá er alveg ljóst að kjararáðshóparnir ættu ekki að vera til þess fallnir til þess að valda sérstöku spennustigi…“
Það eitt út af fyrir sig að ráðherrarnir skuli nú tilbúnir til að tala um Kjararáð vekur vissar vonir, því að þeir hafa þagað að langmestu leyti um ákvarðanir þess.
Hitt er ljóst að verkalýðshreyfingin sér þetta með öðrum augum en Bjarni.
Í fyrsta lagi skrifuðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar ekki undir niðurstöðu þess starfshóps, sem Bjarni vísar til. Það voru einungis fulltrúar ríkisins sjálfs sem það gerðu svo og fulltrúar atvinnulífsins. Fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar taldi að lækka ætti með lögum laun embættismanna og kjörinna fulltrúa.
Í öðru lagi hafa þeir lýst því yfir að þeir líti á launahækkanir æðstu embættismanna, sem viðmið í sinni kröfugerð. Þeir vísa ekki í launahækkanir kjörinna fulltrúa, eins og Bjarni gerði.
Það jákvæða er að nú er ljóst að rökræður munu fara fram um ákvarðanir Kjararáðs milli ríkisstjórnar, fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda.
Slík skoðanaskipti þessara aðila um Kjararáð eru alger forsenda þess að takast megi að ná farsælli niðurstöðu.“ Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.