Ökumaður lést eftir að hann missti stjórn á bíl sínum og hafnaði utan vegar við eftirför lögreglu á Akrafjallsvegi í gærkvöldi. Þetta segir Lögreglan á Vesturlandi í tilkynningu. Þar kemur fram að bíllinn hafi oltið nokkrum sinnum og haft er eftir sjónarvottum að ökumaðurinn hafi kastast út úr bifreiðinni. Endurlífgun lögreglu og sjúkraliðs á vettvangi bar ekki árangur.
Lögreglu barst tilkynning um rásandi aksturslag bíls í Hvalfjarðargöngu á leið vestur um sjöleytið í gærkvöld. Lögreglumenn fóru frá Akranesi til að kanna málið og mættu bílnum á Akrafjallsvegi.
Þá sneri lögregla við og ætlaði að stöðva ökumanninn til að kanna ástand hans. Hann jók ferðina þá verulega og tók fram úr strætisvagni á ógnarhraða, segir í tilkynningunni. Eftir það missti hann stjórn á bílnum. Rannsóknardeild Lögreglunnar á Vesturlandi er með slysið til rannsóknar og nýtur aðstoðar tæknideildar Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.
Umræða