Mikið hefur verið um útköll að undanförnu þar sem hnífar koma við sögu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og varð engin undantekning á þennan daginn. Snemma í morgun var tilkynnt um aðila sem væri að ógna fólki í miðborginni með hníf. Var viðkomandi handtekinn og fannst þá í fórum hans nokkuð af eiturlyfjum í söluumbúðum ásamt miklu magni peningaseðla.
Var viðkomandi því vistaður í fangageymslu grunaður um vopnalagabrot og sölu fíkniefna. Er hann annar tveggja sem gistir fangageymslu meðal annars vegna vopnaburðar, og þá var hnífur einnig haldlagður hjá þriðja aðila í nótt, án þess að til vistunar í fangageymslu þyrfti að koma í því tilviki. Rétt er að benda á að samkvæmt vopnalögum er vopnaburður á almannafæri bannaður, jafnvel þó um sé að ræða „sakleysisleg“ vopn eins og litla vasahnífa, nema sérstakar ástæður séu fyrir vopnaburðinum, s.s. vegna vinnu, veiða o.þ.h.
Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur og annar fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í morgunsárið. Sá neitaði að stíga út úr bifreið sinni við afskipti og bíður því einnig kæra fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.
Meðal hefðbundinna útkalla lögreglu á morgnana um helgar eru kvartanir vegna hávaða, iðulega tengdar byggingaframkvæmdum. Svo var og þennan daginn og áttu í því tilviki nokkrir verktakar hlut að máli, þó þeir eigi sem fagmenn að vita betur. Er ekki úr vegi að benda fólki á hina stórskemmtilegu reglugerð um hávaða hvað þetta varðar, en þar kemur skýrt fram að ekki má standa í háværum framkvæmdum á íbúðarsvæðum fyrr en kl 10 að morgni um helgar og á almennum frídögum.