Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að nýrri reglugerð um raforkuviðskipti. Er þar um uppfærslu á eldri reglugerð að ræða þar sem nánar er kveðið á um rétt neytenda og skyldur sölu- og veitufyrirtækja gagnvart neytendum.
Margvíslega réttarbót er að finna í drögunum sem snýr m.a. að því að tryggja rétt neytenda á hverjum tíma til að velja sér raforkusala, auðvelda notendaskipti með rafrænum hætti, stytta fresti þegar kemur að rétti notanda til að segja upp sölusamningi og auðvelda viðskipti við hleðslustöðvar raforku.
Að sama skapi eru með reglugerðardrögunum lagðar auknar skyldur á sölufyrirtæki og dreifiveitur með það að markmiði að upplýsa neytendur um rétt sinn, leiðbeina þeim með aðgengilegum og sýnilegum hætti, og gæta jafnræðis í hvívetna þannig að ekki sé t.d. vakin athygli notenda á einu sölufyrirtæki umfram annað.
Þær breytingar sem reglugerðin kveður á um eru í samræmi við auknar áherslur á neytendavernd sem er að finna í þriðju raforkutilskipun ESB. Áfram eru til skoðunar ákvæði reglugerðarinnar sem lúta að fyrirkomulagi við útgáfu reikninga fyrir sölu og dreifingu raforku, með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.
Markmið reglugerðarinnar er að efla neytendavernd á sviði raforkumála, stuðla að einföldun regluverks og rafrænni stjórnsýslu, og að sama skapi að liðka fyrir aðkomu nýrra aðila á smásölumarkað raforku en það er mikilvægur liður í því að efla samkeppni á raforkumarkaði með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Í nýlegri skýrslu frá verkfræðistofunni EFLU, um raforkuverð og þróun samkeppni á raforkumarkaði, er bent á að mikilvægt sé að hvetja minni notendur raforku til að vera virkir á raforkumarkaði þar sem það auki samkeppni og veiti sölufyrirtækjum verðaðhald.