Breska ferðaskrifstofan Thomas Cook hefur hætt starfsemi eftir að viðræður um nauðarsamningar gengu ekki upp í nótt og fyrirtækið er þar með komið í þrot. Bresk flugmálayfirvöld hafa tilkynnt að fyrirtækið hafi þegar lagt niður alla starfsemi og öllum ferðum á vegum fyrirtækisins, flugferðum og pakkaferðum, hefur verið aflýst.
Talið er að rúmlega 150.000 manns séu strandaglópar nú þegar, víða um heim, eftir gjaldþrot flugfélagsins og segja bresk yfirvöld þetta mestu mannflutninga á friðartímum í sögunni. Samtals muni gjaldþrotið hafa áhrif á um 600.000 ferðamenn.
Thomas Cook er elsta ferðaskrifstofa heims 178 ára og einnig ein sú stærsta. Um 22.000 manns starfa við hana og þar af um 9.000 í Bretlandi. Rekstur ferðaskrifstofunnar hefur gengið mjög illa og mikið tap hefur verið á rekstrinum. Samkvæmt frétt BBC náðist að tryggja 140 milljarða króna neyðarlán í ágúst en ekki reyndist unnt að afla frekari lána í haust til þess að tryggja áframhaldandi rekstur. Bresk yfirvöld vinna nú hörðum höndum við að koma viðskiptavinum flugfélagsins til síns heima.