Þann 21.desember hófst jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall. Alls hafa um 5000 skjálftar mælst frá upphafi hrinunar. Stærsti skjálftinn var 4,9 að stærð kl. 09:23 í gær og fannst hann vel á SV-horninu. Fjórir skjálftar yfir 4 að stærð og fjölmargir yfir 3 að stærð hafa mælst.
Frá miðnætti hafa um 800 skjálftar mælst, flestir nærri gosstöðvunum við Fagradalsfjall á 5-8 km dýpi. Um eftirmiðdag í gær dró lítillega úr virkninni við Fagradalsfjall, en um kl. 22:30 jókst hún á ný með hviðu af aukinni skjálftavirkni sem hefur verið túlkuð sem kvikuhlaup. Líklegasta skýring skjálftavirkninnar er merki um að kvikan sé færast til í jarðskorpunni eftir kvikuganginum sem myndaðist í aðdraganda gossins í vor.
Jarðskjálftavirknin hefur gengið upp og niður með u.þ.b klukkutíma löngum þyrpingum á nokkurra klukkustunda fresti. Skjálftavirknin er á svæðinu frá Nátthagakrika að Litla-Hrúti, en flestir skjálftarnir eru staðsettir nærri eldstöðvunum við Fagradalsfjalli á um 5-8km dýpi.
Áfram verður fylgst náið með virkninni en búast má við að hún haldi áfram að vera lotubundin með hviðum sambærilegum þeim og sést hafa síðasta sólarhringinn. Út frá þeim gögnum og mælingum sem liggja fyrir núna eru vísindamenn sammála um að ekki sé hægt að útiloka að kvika geti komist upp á yfirborð með skömmum fyrirvara. Ef horft til virkninnar við upphaf goss í mars er mögulegt að kvika komist upp á yfirborð án þess að slíkt sjáist á mælitækjum heldur mögulega eingöngu á vefmyndavélum.
Grafið sýnir skjálftavirknina í einn sólarhring frá kl. 10, 22. desember eins og hún kemur fram á fjórum mælum. Eftir talsvert mikla virkni í gærmorgun hefur hún gengið upp og niður með u.þ.b klukkutíma löngum þyrpingum á nokkurra klukkustunda fresti frá því um kl. 22:30 í gær.