Virðing, ást, traust, vinátta, frelsi, samvinna, öryggi og væntumþykja er það sem skapar gott samband og það er það sem bæði karlmenn og konur vilja í samböndum. Karlmenn vilja veita konum það því karlmenn elska konur alveg eins og konur elska karlmenn.
Þegar ég var að alast upp horfði ég upp á ást og elsku foreldra minna og geri það ennþá. Þau hafa verið saman í 38 ár og faðir minn elskar móður mína enn þann dag í dag eins og frá fyrstu sýn og kemur fram við hana af ást og virðingu. Eins er það með móður mína gagnvart föður mínum. Sönn ást.
Ég ólst upp með fjölskyldu með stórt hjarta, ást og væntumþykju og ég erfði það frá bæði foreldrum mínum og stórfjölskyldunni, stórt hjarta og mikla ást til að gefa. Ég fékk gott og fallegt uppeldi.
Flestir karlmenn sem ég þekki elska konur og koma rétt fram við þær af ást og virðingu. Auðvitað verða erfiðleikar í samböndum fólks en ef fólk elskar hvort annað þá leysast þau mál. Það er að segja ef sú ást er beggja megin og andleg heilsa einstaklingana í lagi.
Ég þekki af eigin raun ást, alvöru ást og ég elska konur og ber virðingu fyrir þeim.
Ef við tölum um ofbeldi þá eru ekki allar konur sem beita ofbeldi og heldur ekki allir karlmenn. Og á lífsleiðinni hef ég séð að þessir einstaklingar sem beita ofbeldi eru í minnihluta hvort sem þær eru konur eða karlmenn.
Mér finnst gott að sjá bæði karlmenn og konur standa upp fyrir sjálfum sér þegar þau að hafa orðið fyrir ofbeldi. En við verðum að passa að það sé gert á bæði réttan og réttmætan hátt fyrir báða aðila og það er í gegnum réttarkerfið sem byrjar með ákæru hjá lögreglunni.
Þegar konur og karlmenn hafa farið í gegnum erfitt samband að hluta til og annar aðilinn heldur fast í gremju og reiði í kannski mörg ár og fer að tjá sig opinberlega á samfélagsmiðlum getur byrjað stríð á milli aðila sem er hvorki gott fyrir báða aðila né börnin þeirra ef þau eiga börn.
Börnin eldast og munu á endanum sjá stríðið á milli mömmu og pabba og það getur haft gríðarleg neikvæð sálræn áhrif á börnin. Og svona stríð á netinu þjónar engum tilgangi og skilur ekkert eftir sig nema meiri særindi og tilgangslaust stríð og engin fær lokun á málið né frið í sálartetrið sitt.
Þeir karlmenn sem ég þekki elska konur.
En til eru menn sem deila ekki svipuðum tilfinningum né viðhorfum og þeir eru veikir. Og þetta á líka við um konur, því miður.
Mér finnst frábært að sjá jafnrétti kynjanna aukast og sjá starfsbreytingar hjá kynjunum í þjóðfélaginu. Karlmenn eru til að mynda byrjaðir að starfa sem hjúkrunarfræðingar og önnur störf sem talin voru kvenleg. Konur sem læknar, þingmenn eða sjómenn svo eitthvað sé nefnt.
Þjóðfélagið okkar er að breytast hratt á jákvæðan hátt fyrir konur og karlmenn á öllum vígstöðvum svo ég tali nú ekki um stjórnmálin og skiptingu þingmanna þegar kemur að kynjunum. Ég sé virðingu og jafnrétti.
En eins og ég segi: Virðing, ást, traust, vinátta, frelsi, samvinna, öryggi og væntumþykja er það sem skapar gott samband og karlmenn vilja veita konum það. Því karlmenn elska konur.
Við verðum að hætta að beina fingrum að hvort öðru og dæma hvort annað. Að sjálfsögðu eru til erfið sambönd en það þarf tvo til í erfiðum samböndum.
Og að sjálfsögðu eru til ofbeldissambönd þar sem annaðhvort konan eða maðurinn er alfarið gerandinn. Því miður þá er það til.
En við verðum að hætta að gerast dómarar á almennum vettvangi. Við höfum réttarkerfi.
Við getum öll gert betur, bæði konur og karlmenn.
Sleppum að beita ofbeldi á samfélagsmiðlum sem og annarsstaðar og vinnum saman að betra og fallegra samfélagi. Gerum þetta saman með heilbrigðri umræðu sem særir ekki né meiðir og lítum öll í eigin barm.
Karlmenn elska konur.
Og veistu hvað?
Konur elska karlmenn.
Takk fyrir að lesa og gleðilega hátíð! Gísli Hvanndal Jakobsson