Alvarleg staða er komin upp! Ekki bara hjá Samherja, heldur gagnvart íslensku ríki, auðlindum þjóðarinnar og lífeyri almennings
Krafa Namibíu vegna Samherjamálsins nemur 140 milljörðum sem er rúmlega tvöfalt hærri upphæð en neyðarlánið var sem Seðlabankinn veitti í hruninu.

Lífeyrissjóðirnir sem stórútgerðin er búin að þvæla inn í hið umdeilda og ótrausta kvótakerfi munu líklega hrynja með Samherja ef eða réttara sagt, þegar Namibía nær að innheimta sína kröfu að fullu.
Þá eru ótalin fleiri málaferli gegn Samherja og lífeyrissjóðunum, vegna annara mála sem hugsanlega og líklega eiga eftir að koma upp. Sérstakur saksóknari hefur t.d. ekki enn gefið út ákærur eða lokið rannsókn á Samherjamálinu sem dæmi um þá hættu sem er yfirvofandi auk þessarar 140 milljarða kröfu. Áríðandi er að ríkisstjórnin, lífeyrissjóðir og þjóðin átti sig á því hversu há þessi krafa er sem Namibíska ríkið er að lögsækja fyrirtækið um!
Alvarlegra en Icesave?
Spurningin er einföld en óþægileg: er þetta mál stærra og alvarlegra en Icesave? Þá stóð heil þjóð frammi fyrir því að bera kostnað af gjörðum fárra. Erum við aftur komin á sama stað, í nýtt hrun?
Hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja auðlind landsmanna og lífeyri?
Hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja auðlind landsmanna þegar eitt stærsta fyrirtæki landsins, sem fer með gríðarlegan hluta úthlutaðra aflaheimilda, er flækt í alþjóðlegar ákærur og málaferli? Hvernig ætlar hún að verja lífeyrissjóði þjóðarinnar gegn óbætanlegu tjóni þegar eignir, kvótar og réttindi eru í hættu á að verða fryst eða færð undir erlent lögsagnarumdæmi?
Eigum við í alvöru að horfa upp á það að íslenska ríkið þurfi síðar að semja við erlent fyrirtæki, jafnvel breskt, sem hefur með dómi náð undir sig eignum sem byggðar eru á sameiginlegri auðlind íslensku þjóðarinnar?
Hvernig sækir Ísland sitt tjón þegar gæði landsmanna eru komin í hendur annarrar þjóðar vegna brotastarfsemi stórútgerðar? Svarið er einfalt og vel þekkt, þjóðin borgar alltaf tapið og í þessu tilfelli er um að ræða lífeyri þjóðarinnar vegna ákvarðana þeirra lífeyrissjóða sem létu blekkjast.
Þetta er ekki lengur spurning um ímynd, markaðsmál eða tilfinningaleg viðtöl. Þetta er kerfisáhætta. Þetta er ógn við fullveldi yfir auðlindum þjóðarinnar.
Í þessari alvarlegu stöðu er ekki rétti tíminn að hlusta á kjökrandi pabbastráka eða hagsmunagæslu þeirra eins og PR fyrirtækin, sem koma með sínar söguskýringar og reyna að klóra yfir skítinn. Nú þarf ríkisstjórnin að hafa vit á því að girða sig í brók og taka af skarið og viðurkenna vandann.
Innköllun aflaheimilda Samherja strax!
Innköllun aflaheimilda Samherja strax! Þjóðnýting fyrirtækisins ef nauðsyn krefur, þar sem forsendur fyrir úthlutun aflaheimilda til þess til eins árs í senn hafa brostið vegna Samherjamálsins.
Endurskoðun og niðurfelling núverandi kvótakerfis og upptaka nýs fiskveiðikerfis sem þolir ekki að vera notað sem veð til að braska með í alþjóðlegum lögsóknum vegna brotastarfsemi.
Ef ríkisstjórnin bregst ekki við núna, þá er hún ekki að verja stöðugleika, heldur að leggja lífsgæði þjóðarinnar og lífeyrissjóði landsmanna í rúst.
Tími til aðgerða er núna! Ekki eftir að allar eignir verða frystar, þá er það orðið of seint. Ekki eftir að skaðinn er orðinn óafturkræfur fyrir lífeyrissjóðina okkar, land og þjóð.

